Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 04. maí 2012 08:30
Magnús Már Einarsson
Jörundur Áki: Menn halda að það séu digrir sjóðir
Jörundur Áki Sveinsson.
Jörundur Áki Sveinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
,,Miðað við hvernig liðinu hefur gengið í vetur og breytingarnar í hópnum þá er þetta ekki að koma sérstaklega á óvart. Það er undir okkur komið að koma í veg fyrir að þessi spá rætist og við erum staðráðnir í að gera betur en 9. sæti," segir Jörundur Áki Sveinsson þjálfari BÍ/Bolungarvíkur en liðinu er spáð 9. sæti í 1. deildinni í sumar.

,,Veturinn hefur verið svolítið erfiður. Við erum búnir að vera mjög fámennir og það hefur komið svolítið niður á okkur. Hópurinn er ekki stór og þessir strákar sem hafa verið fyrir vestan hafa ekki geta komist allar helgar suður vegna veðurs og af öðrum ástæðum."

BÍ/Bolungarvík náði fínum árangri í fyrra en liðið var í efri hluta deildarinnar lengst af og fór í undanúrslit í bikarnum. Þónokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum síðan þá.

,,Ég er ánægður með þann liðsstyrk sem við höfum fengið og ánægður með hópinn sem ég er með en engu að síður verður breiddin okkar helsta vandamál. Við megum ekki við miklum skakkaföllum en við erum tilbúnir í slaginn. Við erum búnir að æfa vel og líkamlega og andlega erum við nokkuð góðir."

BÍ/Bolungarvík hefur reynt að fá íslenska leikmenn til sín í vetur en með misgóðum árangri.

,,Það er eitthvað um það að menn haldi það að þarna séu djúpir vasar af peningum og haldi að þarna séu digrir sjóðir sem hægt er að ganga í en það er ekki þannig. Það hefur reynst frekar erfitt að fá íslenska stráka vestur. Í einhverjum tilfellum hefur verið ódýrara að fá útlendinga, þeir eru tilbúnir að vinna og líta á þetta sem mikið ævintýri," segir Jörundur sem segir suma íslenska leikmenn vera með of háar launakröfur.

,,Sumir hverjir hafa gert það miðað við hvað þeir eiga inni en engu að síður eru sumir tilbúnir að koma til að spila fótbolta og hafa gaman af þessu. Það eru ennþá svoleiðis menn til og við fögnum því."

Keppni í fyrstu deild karla hefst eftir átta daga en Jörundur Áki býst ekki við frekari liðsstyrk fyrir fyrsta leik.

,,Það gæti verið en eins og staðan er í dag er það ekki á döfinni. Hvort það verði á morgun, hinn eða í næstu viku verður að koma í ljós," sagði Jörundur sem býst við hörkudeild í sumar.

,,Hún verður örugglega tvískipt. Það eru lið sem verða mjög öflug og síðan eru lið sem gætu verið í efri hlutanum og sogast niður í neðri hlutann. Þetta gæti orðið mjög skemmtilegt deild."
Athugasemdir
banner
banner
banner