Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 08. maí 2012 13:00
Magnús Már Einarsson
Bestur 1. umferðar: Skemmtilegra í boltanum en músíkinni
Ingólfur Þórarinsson (Selfoss)
Bræðurnir Guðmundur og Ingólfur Þórarinssynir.
Bræðurnir Guðmundur og Ingólfur Þórarinssynir.
Mynd: Gunnar Már Hauksson
Ingó ætlar að vera lítið í tónlistinni í sumar.
Ingó ætlar að vera lítið í tónlistinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
,,Þetta er mjög mikið hrós, maður hefur aldrei lent í þessu áður. Ég átti góðan leik heilt yfir en stefnan er að reyna að vera jafn í sumar og vera alltaf þokkalega fínn. Þetta gekk vel í fyrsta leik og verður vonandi svona áfram," sagði Ingólfur Þórarinsson leikmaður Selfyssinga en hann er leikmaður 1. umferðar í Pepsi-deildinni að mati Fótbolta.net.

,,Ég horft á þetta tímabil sem tækifæri til að vera í fótboltanum á fullu. Ég verið mikið í músíkinni með og ekki verið í jafn góðu líkamlegu formi og ég hef getað verið í. Það er erfitt að spila í efstu deild eða í toppbaráttu í fyrstu deild og vera ekki í toppformi. Ég er í frekar góðu formi núna, ég er lítill og léttur og ég þarf að vera sterkur til að geta spilað almennilega," segir Ingólfur sem hefur verið duglegur í lyftingarsalnum í vetur.

,,Ég hef lyft töluvert meira en áður. Það er vel haldið utan um þetta hjá Selfyssingum, við förum þrisvar í viku að lyfta saman. Maður er ekki að horfa á tækin í lyftingarsalnum eins og er oft hjá fótboltaliðum."

Getur tekið bæjarhátíðarnar 38 ára:
Ingólfur hefur verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins undanfarin ár en hann er tilbúinn að sleppa mörgum verkefnum þar til að spila með Selfyssingum í fótboltanum.

,,Það verða alltaf einhver gigg en þegar maður getur notið þess að vera í fótbolta næstu árin þá vill maður gera það. Maður er að segja nei við bæjarhátíðir úti á landi sem eru heilar helgar á sumrin. Maður getur tekið það þegar maður verður 38 ára, þá kemur einn gráhærður og rífur upp stuðið."

Ingólfur mun verða af dágóðum tekjum í sumar þegar hann sleppir því að spila í tónlistinni en hann segist ekki sjá eftir því.

,,Ef maður er öruggur peningalega er þess virði að gera eitthvað skemmtilegt eins og að vera fótboltanum og spila fyrir framan 1500 manns í hverjum leik. Það er meira en í músíkinni, það er þreföldun á meðalsveitaballi. Það er meiri stemning yfir því og þetta er líka ástríða," segir Ingólfur sem segir skemmtilegra að spila fótbolta en að spila á balli.

,,Eins og þetta var á Selfossi í fyrsta leik þá er þetta skemmtilegra. Eina sem kemst nálægt því er að spila á Þjóðhátíð í Eyjum fyrir framan 10-15 þúsund manns. Ef maður er í formi og góðu liði eins og núna þá er skemmtilegra að vera í boltanum."

Gummi bróðir við sama matarborðið kvöldið fyrir leik:
Guðmundur Þórarinsson, yngri bróður Ingólfs, leikur á miðjunni hjá ÍBV og þeir bræður áttust því við í leiknum á sunnudag. Þeir gistu báðir heima hjá foreldrum sínum fyrir leikinn og Ingólfur segir að að hafi verið skrýtið að mæta litla bróður.

,,Kvöldið áður þegar maður ætlaði að peppa sig upp í að spila sinn fyrsta leik og taka á þessum helvítis eyjamönnum þá var Gummi bróðir við sama matarborð. Við gistum báðir á Selfossi og tókum rúnt og kíktum á völlinn og spjölluðum um liðin," segir Ingólfur.

,,Maður vill alltaf vera góður við litla bróður og maður vill ekki strauja hann og peppa sig upp í að hata andstæðinginn. Maður reyndi bara að sleppa því og spila sinn leik."

Ingólfur segist alveg hafa látið það vera að stríða Guðmundi eftir 2-1 sigur Selfyssinga í leiknum.

,,Ég þekki hann ágætlega og hann fílar það þegar það er verið að tala illa um hann, þá kemst hann í betra stuð. Ég held að það sé ekki góð taktík að nudda honum upp úr þessu, frekar að segja "þetta kemur" og hrósa honum. Þá verður hann ekki jafn gíraður í næsta leik, ég er farinn að hugsa um leikinn í Eyjum."

Gamli flaggaði fyrir Selfossi og ÍBV:
Foreldrar Ingólfs fylgdust að sjálfsögðu með leiknum á sunnudag og sáu syni sína eigast við.

,,Gamli flaggar alltaf þegar það er leikur hjá Selfyssingum og líka hjá ÍBV. Hann flaggaði tveimur fánum en Selfoss fáninn var ofar, mamma heimtaði það því að hún er Selfyssingur. Pabbi er Eyjamaður og minn grunur kvöldið fyrir leik var að pabbi hallaðist að ÍBV en mamma að Selfossi. Ég held að það hafi allir verið sáttir eftir leik, við þurftum kannski meira á þessum stigum að halda en þeir til að koma okkur af stað inn í mótið. Við erum ekki vanir að spila í úrvalsdeild og þurftum smá sjálfstraust í liðið," sagði Ingó að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner