banner
   mán 09. febrúar 2004 00:00
Ævintýraferð til Englands: Ferðasaga
Jussi Jaskelainen, Elvar, Sami Hyypia og Hjalti
Jussi Jaskelainen, Elvar, Sami Hyypia og Hjalti
Þann 6. febrúar lögðu um 140 manns leið sína til Manchester á Englandi á vegum ÍT Ferða. Tveir fréttaritarar síðunnar skelltu sér með í ferðina en það vorum við, Elvar og Hjalti.

Eftir flugið út var tekin rúta á hótelið og menn innrituðu sig. Svo skildust leiðir. Sumir fóru í skoðunarferðir á Old Trafford eða Anfield en aðrir röltu um bæinn eða hvíldu sig, enda var flugið um morguninn og margur mannin eflaust úrvinda. Við á síðunni höfðum verið að vinna að því ansi lengi að komast á æfingu hjá Bolton og gældum við það fram á síðustu stundu og fórum því ekki í neinar skoðunarferðir enda báðir búnir að fara í slíkar ferðir á vellina áður.

Því miður komumst við ekki á æfingu hjá Bolton enda skildist okkur að það hafi ekki verið nein eftirmiðdagsæfing vegna þess að það var að sjálfsögðu leikur við Liverpool daginn eftir. Þá var morgunæfingin búin enda lentum við ekki fyrr en um hádegið. Einnig ætluðum við að gera okkar besta í að hitta Árna Gaut Arason en hann var upptekinn við að sinna einkamálum sem og á æfingum. Ekki gat hann heldur hitt okkur á laugardeginum því þá var hann farinn á hótel með liði sínu, Manchester City sem spilaði við Birmingham í gær.

Um kvöldið var svo haldin mikil skemmtun á klúbbnum Barca í miðborginni og var allt fullt af fólki á staðnum. Þar var kvöldverður sem við reyndar komumst ekki í vegna þess að við ætluðum hugsanlega að hitta Árna Gaut um svipað leiti en það semagt gekk ekkert upp. Eftir matinn þá tók við frábær skemmtun frá þeim Stefáni Hilmarssyni, stórsöngvara og Jóni Ólafssyni, píanógúrú með meiru. Þessir frábæru strákar héldu uppi stemmningunni með mörgum flottum lögum og stóðu þeir sig framúrskarandi vel í að trylla lýðinn. Eftir skemmtunina á staðnum tvístraðist hópurinn og menn fóru ýmist á pöbbarölt og héldu áfram að skemmta sér eða þá bara upp á hótelið.

Á laugardeginum var svo morgunverður að hætti innfæddra en eftir hann safnaðist fólk saman á hótelbarnum þar sem við tóku töflufundir fyrir leiki dagsins, Bolton-Liverpool og Everton-Manchester United. Það var enginn annar en snillingurinn Kenny Moyes sem var með töflufundinn fyrir leikinn á Goodison Park en hann er einmitt bróðir David Moyes sem er knattspyrnustóri Everton. Þeir eru komnir af mikilli fótboltafjölskyldu og hefur hann mikla þekkingu á íþróttinni. Það var svo að sjálfsögðu kóngurinn sjálfur, Guðni Bergs sem var með skemmtilegan og fróðlegan töflufund fyrir leik Bolton og Liverpool. Að sjálfsögðu þekkir hann Bolton liðið út og inn og Guðni hefur fylgst lengi með Liverpool liðinu og hann vissi ansi margt um þá líka.

Þá var komið að því að halda á völlinn og ég held að aðeins fleiri hafi farið til Bolton en það munaði þó ekki miklu. Við vorum með í för til Bolton á hinum glæsilega Reebok velli. Á leiðinni út í rútu talaði Guðni við okkur strákana og sagði okkur að hann hefði reddað sérstökum passa fyrir okkur sem gerði okkur kleyft að fara á “bakvið tjöldin” á vellinum. Svo sagði hann: “Stákar mínir, þið komist ekkert inn í gallabuxum!” Og þá voru góð ráð dýr enda var Elvar aðeins með gallabuxur í ferðinni en Hjalti var með aðrar buxur sem hann dreif sig í og þeir töfðu alla ferðina með þessu veseni. Þegar komið var á völlinn vorum við ekki lengi að leita að næsta molli sem var rétt hjá vellinum en við veðjuðum þó á stórmarkaðinn ASDA sem er svipuð búð og Hagkaup í Smáralind, nema bara miklu miklu stærri. Þar voru keyptar svartar buxur á Elvar og Hjalti fékk sér hvíta skyrtu og svart bindi og vorum við því orðin fínir í tauinu fyrir lítnn pening enda kom það á daginn að skyrtan hans Hjalta var gegnsæ og bindið úr einhverju gerviefni enda kostaði það aðeins 200 krónur íslenskar.

Eftir þetta ævintýri var stefna því tekin á lúxus svítur Reebok vallar og þangað komumst við inn enda orðnir svakalega fínir. Þar blasti við okkur “Players Lounge” eða setustofa leikmanna sem og svíta stjórnarformannsins í Bolton og heiðursstúkan. Svo var farið upp á barinn þar sem alls kyns kræsingar voru á boðstólnum fyrir leikinn. Þarna vorum við í góðum félegsskap með Stebba Hilmars, Jóni Ólafs og fleirum sem einnig fengu aðgang þarna bakvið allt að tilstylli Guðna sem er gjörsamlega elskaður í þessari ágætu borg, Bolton. Hann mátti varla hreyfa sig þá var búið að faðma hann og konuna hans og hann er svo sannarlega réttnefndur Kóngurinn.

Svo hófst leikurinn en hann var mikil skemmtun. Nóg af færum og þegar upp var staðið hafði hvort lið skorað 2 mörk og eru það líklega bara sanngjörn úrslit. Eftir leikinn fengum við svo að fara aftur inn í svíturnar en þar sáum við leikmenn eins og Kevin Davies, Ivan Campo, Per Frandsen og fleiri. Einnig sáum við nokkra Liverpool leikmenn ganga í rútuna og gefa eiginhandaráritanir. Allir í liðinu gáfu sér tíma til að rita nöfn sín fyrir æsta áhangendur liðsins nema einn, Michael Owen. Hann strunsaði beint út í rútu og fékk baul að launum frá svekktum stuðningsmönnunum. Enn einu sinni kíktum við inn og þá labbaði Sami Hyypia framhjá okkur ásamt Jussa Jaaskelainen. Guðni var á spjalli við Kevin Nolan og fleiri en við röltum upp í leikmannasvítuna. Þar ætluðum við inn og um leið og við sögðumst vera íslensk var okkur umsvifalaust hleypt inn en Guðni var ekki með okkur þá. Við vildum ekki vera að trufla Hyypia og Jaaskelainen sem voru að spjalla ásamt konu hins síðarnefnda en að það var Stefán Hilmarsson sem dró okkur hreinlega að honum og smellti af mynd og svo fengum við eiginhandaráritanir frá Hyypia en það var að sjálfsögðu alveg frábært. Svo var haldið heim á hótel eftir frábæran dag og menn fóru út að borða og skemmtu sér síðan um kvöldið.

Á sunnudeginum þurftu menn svo að fara af hótelinu klukkan tólf en þá fór nokkur stór hópur á leik Manchester City og Birmingham á hinum glænýja og stórkostlega City og Manchester Stadium. Leikurinn var ekki mikið fyrir augað enda endaði hann með markalausu jafntefli en að koma á þenann völl var samt sem áður alveg mögnuð upplifun. Eftir leikinn var svo haldið beint á flugvöllinn og heim þar sem var lent í gærkvöld.

Við viljum þakka ÍT Ferðum fyrir ógleymanlega ferð en hópurinn var stórskemmtilegur og allir skemmtu sér konunglega. Allir ferðafélagar okkar fá einnig bestu þakkir en það var ekki síður þeim að þakka hve ferðin heppnaðist vel.

Einnig viljum við þakka Guðna Bergssyni sérstaklega fyrir að vera alveg frábær við okkur í að redda okkur þessum miðum og öllu sem hann gerði fyrir okkur.

Stefán Hilmarsson og Jón Ólafsson fá einnig þakkir fyrir skemmtunina sem var frábær.

Hörður Magnússon íþróttafréttamaður var með í för ásamt Billa myndatökumanni en þeir fengu viðtöl við Gerard Houllier, stjóra Liverpool, Sam Allerdyce sem gegnir sama starfi hjá Bolton og leikmennina Youri Djorkaeff og Jussa Jaskelainen. Þessi viðtöl verða sýnd á Sýn á næstunni, bæði í Olíssportinu og Boltanum með Guðna Bergs á sunnudaginn.

Ef þið hafið myndir úr ferðinni sem þið viljið sýna hér þá megið þið senda okkur þær í tölvupósti og við reynum að birta þær hér á síðunni.

Miklu fleiri myndir úr ferðinni eru væntanlegar


Athugasemdir
banner
banner
banner