Gylfi Þór Sigurðsson liggur þessa dagana undir feldi og íhugar framtíð sína en samkvæmt heimildum Fótbolta.net mun hann ákveða í kringum mánaðamótin með hvaða félagi hann mun leika á næsta tímabili.
Gylfi fundaði með nokkrum félögum Bretlandi fyrir síðustu helgi en hann kom heim til Íslands á laugardaginn.
Líklegt er að Gylfi taki ákvörðun í lok vikunnar eða um næstu helgi þegar nýr mánuður gengur í garð.
Þessi 22 ára gamli leikmaður hefur verið mest orðaður við Tottenham og Liverpool undanfarna daga. Brendan Rodgers fyrrum stjóri Gylfa hjá Swansea tók við Liverpool á dögunum en Tottenham er án knattspyrnustjóra í augnablikinu eftir að Harry Redknapp var rekinn.
Veðbankar á Englandi gefa lægstu stuðlana á að Gylfi gangi í raðir Tottenham en Liverpool kemur þar á eftir. Hans gamla félag Reading er síðan með þriðja lægsta stuðulinn og þar á eftir kemur Swansea.
Athugasemdir