Hilmar Rafn Emilsson gekk í síðustu viku aftur til liðs við uppeldisfélag sitt Hauka á láni frá Val. Hilmar Rafn kom beint inn í liðið í 1-0 sigrinum gegn Tindastóli á laugardag en eftir leik þurfti hann að fara í flýti á sjúkrahús og gista þar vegna ofnæmis.
,,Ég er með bráðaofnæmi fyrir hnetum það hefur smitast eftir að ég drakk úr vatnsbrúsa eða eitthvað svoleiðis," sagði Hilmar við Fótbolta.net í dag.
,,Ég byrjaði að bólgna upp í augunum, andlitinu og síðan fann ég að hálsinn var farinn að þrengjast þannig að ég fór upp á spítala að fá einhverjar adrenalín og sterasprautur."
Hilmar Rafn gisti á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki en unnusta hans sótti hann síðan í gær.
,,Ég var kominn upp á sjúkrahús korteri eftir leikinn og síðan þurfti ég að vera þarna yfir nóttina. Þetta var hörkustuð, ég var ásamt tveimur gömlum konum þarna á sjúkrahúsinu."
Næsti leikur Hauka er gegn Hetti á laugardag og hann ætlar ekki að nota sama brúsa og aðrir leikmenn þar til að koma í veg fyrir smit.
,,Ég fæ sérbrúsa. Ég ræði þetta við menn á æfingu á eftir," sagði Hilmar léttur í bragði að lokum.
Athugasemdir