mán 03. maí 2004 00:00
Elvar Geir Magnússon
2.deild karla 2004 - Spá Fótbolti.net
Mynd: Elvar Geir Magnússon
Það styttist óðum í að Íslandsmótið í knattspyrnu hefjist og við á Fótbolti.net erum byrjuð að hita upp. Þann 16.maí hefst keppni í 2.deild karla en þá verður heil umferð leikin. Til gamans þá veltum við möguleikum liðanna í deildinni fyrir okkur og birtum hér okkar spá fyrir sumarið en hún er aðeins gerð til gamans. Ekki var auðvelt að spá því búast má við mjög jafnri keppni í 2.deild.

Upplýsingar um félagaskiptin eru af heimasíðu KSÍ.

Á miðvikudaginn byrjum við síðan að hita upp fyrir Úrvals- og 1.deildina með því að birta spá okkar fyrir þær deildir. Við komum með til að kynna eitt lið á hverjum degi fram að móti.


1. Leiftur/Dalvík
Leiftur/Dalvík féllu úr 1.deild í fyrra en ætla sér strax upp. Liðið er ungt að árum og byggir mikið til á heimamönnum í ár. Þrátt fyrir fall í fyrra var Nói Björnsson endurráðinn sem var alls ekki óvitlaust enda Nói mjög reyndur og er mikill stemningskall. Hafa misst nokkuð frá því í fyrra en í staðinn fengið sterka pósta og ætti liðið alls ekki að vera veikara í ár. Liðsandinn og samheldnin meiri í liðinu og menn þekkjast betur. Þeir hafa einn besta mann deildarinnar innan sinna raða, Foriz Sandor og svo er Jón Örvar Eiríksson kominn til baka.

Eru vel skipulagðir, hraðir fram á við og vel spilandi. Veikleikar þeirra eru fyrst og fremst reynsluleysi en reynsla nokkurra lykilmanna ætti að vega upp á móti því. Þeir eiga oft til með að detta á ansi lágt plan inn á milli og eru nokkuð sveiflukenndir. Sterk liðsheild fleytir þeim langt. Spá: 1. sæti.

Komnir: Jón Örvar Eiríksson frá KA, Sigurjón Egilsson frá Þrótti N, Þorleifur Kristinn Árnason frá KA, Viktor Már Jónasson frá Reyni Á.

Farnir: Árni Thor Guðmundsson í HK, Usnik Toni til Slóveníu.


2. Víkingur Ólafsvík
Víkingar eru nýliðar í 2.deildinni. Undanfarin ár hefur það verið þannig að nýliðarnir hafa farið beinustu leið upp og það er okkar spá að þannig verði það einnig í ár. Þeirra styrkleikar eru hiklaust mjög vel skipulagður varnarleikur. Þeir hafa mjög sterkan markvörð á milli stanganna og eru í góðri þjálfun. Heimavöllur þeirra er heldur ekkert grín enda láta áhorfendur vel í sér heyra og láta bæði leikmenn og dómara heyra það óspart. Ejub slær ekki slöku við í ár og ætlar sér eflaust að blanda sér í toppbaráttuna.

Hafa fengið Predrag Milosavljevic frá Bolungarvík sem er frábær spilari og svo hafa þeir einnig fengið Jón Pétur Pétursson frá ÍA. Þeir hafa aftur á móti misst Hall Ásgeirsson en tilkoma Predrags og Jóns Péturs ættu að styrkja liðið ef eitthvað er. Veikleikar þeirra eru þeir að þeir skora ekki nægilega mörg mörk en það er ekkert víst að það muni há þeim í sumar sökum mjög sterks varnarleiks. Spurning hvernig þeir bregðast við mótlæti þegar á bjátar enda gæti pressan verið mikil á þeim frá Ejub sjálfum. Spá: 2. sæti.

Komnir: Jón Pétur Pétursson frá KA, Predrag Milosavljevic frá Bolungarvík.

Farinn: Hallur Kristján Ásgeirsson í Fjölni.


3. Afturelding
Afturelding féll líkt og Leiftur/Dalvík úr 1.deildinni í fyrra. Voru með slakt lið í fyrra sem áttu sér einskis ills von í 1.deildinni. Verður eflaust aðeins annað upp á teningnum í sumar enda fengið ferska stráka til liðs við sig sem og Lárus Grétarsson sem aðstoðarþjálfara frá Fram. Hann ætti að geta komið með nýjar hugmyndir inn í leik liðsins fyrir Sigurð Þóri Þorsteinsson enda veitir ekki af miðað við spilamennsku liðsins í fyrra.

Afturelding hefur verið að sanka að sér leikmönnum í vetur og hafa til að mynda fengið Kristján Hagalín Guðjónsson frá ÍA, Brynjólf Bjarnason frá Selfossi og Einar Guðnason frá Víkingi. Það er erfitt að segja hvar styrkleiki liðsins liggur sökum þess að liðið breytist ár frá ári og mannabreytingar eru miklar. Kæmi ekki á óvart að varnarleikur liðsins væri þeirra sterkasta vopn enda með Albert Ástvaldsson í vörn liðsins sem og að Einar Hjörleifsson stendur á milli stanganna.

Veikleiki liðsins er hiklaust mikið áhugaleysi í kringum liðið meðal bæjarbúa sem smitar út frá sér til leikmanna og samheldnin enda koma menn víða að í liðinu. Liðin fengið til sín haug af mönnum, missterka þó en nú er bara að sjá hversu vel Sigurði Þóri og Lárusi tekst að púsla þessu saman. Spá: 3. sæti.

Komnir: Arnar Gauti Óskarsson frá Leikni F, Baldur Örn Arnarson frá Fylki, Brynjólfur Bjarnason frá Selfossi, Hallur Hallsson frá Fram, Hrafnkell Pálmi Pálmason frá Fjölni, Kristján Hagalín Guðjónsson frá ÍA, Einar Guðnason frá Víkingi.

Farnir: Bjarki Már Árnason til Noregs, Hans Sævar Sævarsson í Þrótt, Henning Eyþór Jónasson í KR, Pálmar Hreinsson í HK, Þorvaldur Már J. Guðmundsson í Víking.


4. Leiknir Reykjavík
Leiknir eru nýliðar í 2.deild. Leiknir hefur undanfarin ár byggt liðið upp á heimamönnum og hefur uppskeran verið ansi misjöfn. Fyrir 2 árum féll liðið í 3.deild en í fyrra komst liðið upp úr 3.deildinni eftir stutta dvöl þar. Liðið er geysilega ungt og mun kannski visst reynsluleysi hrjá liðið í sumar. Þeirra styrkleiki fellst aðallega í mikilli breidd. Ef vel gengur til að byrja með hjá Leikni eru þeir til alls vísir.

Andlegi þátturinn hefur verið þeirra helsti veikleiki á undirbúningstímabilinu þar sem þeir hafa leikið á alls oddi gegn KR en tapað svo fljótlega fyrir lágt skrifuðum liðum. Mjög stór veikleiki sem lið ættu að geta nýtt sér gegn þeim. Vel spilandi lið á góðum degi og mun mikið mæða á fyrirliða og elsta manni liðsins, Hauki Gunnarssyni. Liðinu skortir reynslu til að blanda sér í toppslaginn enda liðið mjög ungt.

Verða eflaust skæðir fram á við með tilkomu dansks sóknarmanns, Jakob Spangsberg og fyrir er þar einnig Einar Örn Einarsson sem skoraði 19 mörk í 3.deildinni í fyrra en veikleiki liðsins verður án efa varnarleikurinn en þar er ekki um auðugan garð að gresja enda breiddin lítil. Spá: 4. sæti.

Komnir: Jakob Spangsberg frá Danmörku, Vigfús Arnar Jósefsson frá KR, Steinarr Guðmundsson frá ÍR, Magnús Már Þorvarðarson frá Fylki, Freyr Alexanderson frá Danmörku, Örvar Jens Arnarsson frá Haukum, Friðrik Böðvar Guðmundsson frá BÍ, Níels Sveinsson frá BÍ.


5. KS
KS er það lið sem alltaf er erfitt að spá fyrir um. Liðinu gengur yfirleitt hörmulega á undirbúningstímabilinu enda er liðið þá ekki það sama og kemur síðan og spilar um sumarið. Liðið mun fá til sín tvo Júgóslava í sumar og annar þeirra er varnarmaður sem lék með þeim í fyrra og er feiknasterkur. Einnig mun Ragnar Hauksson leika með þeim. Ingvar Kale er kominn til þeirra í markið frá Víkingi og mun mikið mæða á honum í sumar.

Þeirra styrkleiki er hiklaust heimavöllurinn sem ætti að reynast þeim drjúgur sem og markvarslan enda Ingvar með betri markvörðum í deildarinnar. Einnig mun mikið mæða á Ragnari Haukssyni en ef hann nær sér á strik þá ætti KS að geta blandað sér í efri hlutann. Spá: 5. sæti

Komnir: Bogi Sigurbjörn Kristjánsson frá Neista H, Guðmar Ómarsson frá Ægi, Ingvar Þór Kale frá Víkingi.

Farinn: Ívar Örn Elefsen í UMFH.


6. ÍR
ÍR var það lið í fyrra í 2.deildinni sem olli hvað mestu vonbrigðum. Væntingarnar voru miklar enda Kristján Guðmundsson ráðinn þjálfari eftir að hafa komið Þór upp í Úrvalsdeild. Það kann ekki góðri lukku að stýra að nota 36 leikmenn í 2.deildinni og það sýndi sig. Nú er Heimir Karlsson tekinn við liðinu og ætti liðið að koma svona þokkalega vel undirbúið til leiks. Liðið er í geysilega góðu formi enda hefur Heimir látið sína menn taka hressilega á því í hlaupunum.

Liðið er þónokkuð breytt frá síðustu leiktíð og það er þeirra helsti veikleiki, það vantar stöðugleika í leikmannahópinn. Þeir hafa fengið til sín einhverja leikmenn og ber þar helst að nefna Jón Grétar Ólafsson sem er gríðarlegur styrkur fyrir þá sem og Halldór Steinar Kristjánsson frá Sindra. Einnig fengu þeir markvörðinn Kjartan Pál Þórarinsson frá Sindra en hann hefur verið heldur mistækur á undirbúningstímabilinu.

Eru með unga stráka inn á milli sem lofa góðu en þeir munu vera í baráttu framan af en hafa ekki það sem til þarf að blanda sér í toppslaginn. ÍR-ingar þurfa að vona að Arnar Valsson muni springa út í sumar enda þeirra allra mikilvægasti leikmaður. Spá: 6. sæti.

Komnir: Benedikt Jóhann Bjarnason frá Létti, Engilbert Garðarsson frá ÍH, Halldór Steinar Kristjánsson frá Sindra, Heimir Þór Árnason frá Fylki, Ingi Þór Rúnarsson frá Neista, Jóhannes Ægir Kristjánsson, Jón Grétar Ólafsson frá Létti, Kjartan Páll Þórarinsson frá Sindra, Óskar Örn Steindórsson frá ÍH, Sævar Hólm Valdimarsson frá Kili.

Farnir: Guðmundur Ingi Úlfarsson í Leikni F, Gunnar Konráðsson í Þór, Gunnar Reynir Steinarsson í KR, Jóhann Björnsson í HK, Sigurður Steinsson í ÍH, Steinarr Guðmundsson í Leikni R, Viðar Guðmundsson í ÍH.


7. Selfoss
Selfyssingar komu skemmtilega á óvart í fyrra og lentu í 3.sæti og háðu harða baráttu við Fjölni um 2.sætið. Lentu á endanum í 3.sæti sem verður að teljast frábær árangur. Árið í ár verður frábrugðið að því leytinu að liðið mum sigla lygnan sjó í sumar. Þrátt fyrir að hafa ráðið Gústaf Adolf Björnsson þá vantar bara of mikið í leikmannahópinn svo liðið geti blandað sér af einhverri alvöru í toppbaráttuna.

Þeirra styrkleiki er hiklaust sá að þeir þekkja hvorn annan mjög vel og eru vel spilandi. Þeirra veikleiki er sá að þeir eru fljótir að gefast upp ef á móti blæs og leikmannahópurinn er alls ekki nægilega breiður. Misstu Jón Guðbrandsson sem söðlaði um og gekk í raðir Víkinga en hafa aftur á móti fengið til sín Einar Ottó Antonsson sem lék með Keflavík í fyrra en hann styrkir sóknarleikinn mikið. Eru með unga og spræka stráka sem hæglega geta blómstrað á góðum degi. Spá: 7. sæti.

Komnir: Árni Sigfús Birgisson frá Árborg, Einar Ottó Antonsson frá Keflavík, Hafþór Gunnlaugsson frá Ægi, Ingi Rafn Ingibergsson frá Stokkseyri, Ingólfur Þórarinsson frá Svíþjóð, Kjartan Þór Helgason frá Eyrarbakka, Sigurður Gísli Guðjónsson frá Hamar, Þorkell Máni Birgisson frá Hetti.

Farnir: Ársæll Jónsson í Ægi, Brynjólfur Bjarnason í Aftureldingu, Guðni Þór Þorvaldsson í Ægi, Jón Guðbrandsson í Víking, Jónas Guðmansson í Þrótt.


8. Víðir
Víðismenn hafa verið í 2.deildinni eins lengi og elstu menn muna. Þeim virðist líða vel þar og ætla lítið að gera til að koma sér þaðan. Verða í ströggli í sumar og gætu hæglega farið niður. Þeirra lykilmaður er án efa Atli Rúnar Hólmbergsson sem hefur verið að leika á miðjunni á undirbúningstímabilinu. Stjórnar spilinu hjá þeim og það skiptir miklu máli fyrir þá að hann nái sér á strik.

Þeir hafa fengið til sín fimm unga leikmenn fyrir sumarið. Þrír þeirra koma frá Keflavík og tveir frá Reyni Sandgerði. Hafa hins vegar misst mun sterkari leikmenn og þar má nefna Ragnar Steinarsson sem er fluttur til Danmerkur og Hafstein Ingvar Rúnarsson sem er farinn til Keflavíkur og Ólaf Þór Gylfason sem mun spila með Njarðvík í sumar. Þetta er of stór biti fyrir Víði að kyngja og ef þeir styrkja ekki hópinn verða þeir í basli í allt sumar. Spá: 8. sæti.

Komnir: Arnar Már Halldórsson frá Keflavík, Björn Bergmann Vilhjálmsson frá Keflavík, Fannar Berg Gunnólfsson frá Keflavík, Harðar Ingi Harðarson frá Reyni S.

Farnir: Guðmundur Þór Brynjarsson í Njarðvík, Hafsteinn Ingvar Rúnarsson í Keflavík, Ólafur Þór Gylfason í Njarðvík, Ragnar Steinarsson til Danmörku.


9. KFS
KFS er algjörlega óskrifað blað. Hafa verið slakir á undirbúningstímabilinu en það er engin nýlunda á þeim bænum. Þetta veltur allt á því hverjir munu spila fyrir þá í sumar. Þeirra styrkleiki eru númer 1, 2 og 3 heimavöllurinn sem reyndist drjúgur hjá þeim í fyrra. Sindri Grétarsson hefur sést á æfingum hjá þeim upp á síðkastið en ekki er talið líklegt að Hlynur Stefánsson spili með þeim. Einnig er alls kostar óvíst hvort Yngvi Borgþórsson leiki með þeim í sumar.

Ef þessir leikmenn spila í sumar ættu þeir að geta hæglega verið ofar en gengi þeirra í sumar veltur allt á þessum mönnum. Vissulega hafa þeir unga stráka inn á milli sem eru mjög sterkir en það má lítið út af bregða. Svo er líka spurning hvort ÍBV láni þeim einhverja stráka þegar tímabilið byrjar. Veikleiki þeirra var í fyrra útivöllurinn en árangur liðsins þar var ekki góður. KFS mun berjast fram í lokaumferð um að sleppa við fall í 3.deild og ef þeir halda áfram góðu gengi á heimavelli og ná að reyta örlítið fleiri stig en í fyrra á útivelli þá ættu þeir að geta sloppið við fall. Spá: 9. sæti

Komnir: Davíð Egilsson frá ÍBV, Haraldur Ingi Shoshan frá Val, Stefán Bragason frá ÍBV, Tómas Michael Reynisson frá BÍ, Víðir Róbertsson frá ÍBV.


10. Tindastóll
Tindastóls liðið mun eiga erfitt sumar í vændum. Þrátt fyrir að sumarið verði þeim erfitt þá verður deildin mjög jöfn þannig að mjótt verður á munum. Hins vegar er það nú þannig að ef Stólarnir ná samskonar sigurleikjagöngu og í fyrra þá eru þeir hólpnir. Þeirra helsti veikleiki er hiklaust hversu brokkgengir þeir geta verið líkt og í fyrra. Ef þeir ætla sér að halda sér uppi þá þurfa þeir að ná stöðugleika.

Heimavöllur þeirra er þeirra helsti styrkleiki en þeir unnu 6 af 9 heimaleikjum sínum í fyrra og ef þeir ná svipuðum árangri í sumar á heimavelli þá eru þeir gott sem búnir að tryggja veru sína í deildinni því 18-22 stig ættu að tryggja sæti í deildinni. En Stólarnir ætla sér eflaust stærri hluti en þetta þannig að þeir ætla sér eflaust að afsanna þessa spá okkar og það kemur í ljós í haust hvort þeim hefur tekist það eður ei. Hafa ekki bætt við sig miklum mannskap, fengið unga stráka til sín og svo hafa þeir fengið Serba. Spá: 10. sæti

Komnir: Guðmundur Kristinn Vilbergsson frá Neista, Hreggviður Heiðberg Gunnarsson frá Þór, Stanko Dorovic frá Serbíu&Svartfjallalandi, Stefán Árnason frá Haukum.


1. Leiftur/Dalvík
2. Víkingur Ó.
3. Afturelding
4. Leiknir
5. KS
6. ÍR
7. Selfoss
8. Víðir
9. KFS
10. Tindastóll
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner