Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 17. apríl 2014 19:52
Alexander Freyr Tamimi
Heimild: RÚV 
Aron Einar: Solskjær veit að þetta var ekki ég
Aron Einar lýsir yfir sakleysi sínu.
Aron Einar lýsir yfir sakleysi sínu.
Mynd: Getty Images
Aron Einar Gunnarsson, leikmaður Cardiff og fyrirliði íslenska landsliðsins, lenti í þeim leiðinlegu aðstæðum að vera sakaður um að hafa lekið byrjunarliði liðsins gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni fyrr í mánuðinum.

Forráðamenn Cardiff voru bálreiðir yfir því að Crystal Palace hefði komist yfir byrjunarliðið fyrir leikinn, sem endaði með 3-0 sigri Palace, og í breskum fjölmiðlum var Aron Einar svo gerður að blóraböggli í dag.

Íslenski landsliðsfyrirliðinn harðneitar sök og segist hafa fullan stuðning innan félagsins.

,,Þetta myndi aldrei koma út úr mínum munni, byrjunarlið Cardiff á móti einhverju öðru liði. Ég er sjálfur fyrirliði íslenska landsliðsins og mér myndi aldrei detta það í hug að stinga liðsfélaga mína í bakið með því að tilkynna andstæðingum okkar liðið okkar," sagði Aron Einar við Hans Steinar Bjarnason hjá RÚV í kvöld.

,,Þetta er bara gripið einhversstaðar og hent mínu nafni inn í þetta út af engu. Svo kemur náttúrulega þetta bréf út sem Cardiff sendir til enska knattspyrnusambandsins, og þar eru þeir að reyna að komast að niðurstöðu að því hver henti mínu nafni í þetta og þess vegna er þetta svona uppblásið akkurat núna."

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Cardiff, hefur rætt málið við Aron og trúir því að hann sé saklaus.

,,Ég er búinn að tala við þjálfarann til og frá og við erum búnir að spjalla heilmikið um þetta, og hann veit alveg að þetta var ekki ég, og stjórnarformenn liðsins líka. Þannig að ég hef engar áhyggjur af þessu, en það er bara leiðinlegt að mitt nafn hafi verið dregið í þetta án þess að það séu einhverjar sannanir fyrir því," sagði Aron Einar.

,,Ég hef ekkert að fela og hef hreina samvisku hvað þetta varðar, og Ole Gunnar veit það. Annars hefði ég náttúrulega ekkert verið í hóp í síðasta leik. Ef þeir hefðu haldið að ég hefði kjaftað þessu liði á móti Crystal Palace hefði ég ekkert verið á bekknum á móti Southampton í síðustu viku."

,,Þetta er bara svona, enska pressan er eins og hún er og það er ekkert hægt að gera í þessu nema bara halda áfram að hugsa um fótboltann. Það er náttúrulega aðalmálið sem við erum að hugsa um núna, að halda sæti okkar í þessari deild. Fréttin er komin, en ég held bara áfram og veit að ég er með stuðning frá þjálfaranum og liðsfélögum mínum, það er það eina sem skiptir máli."

,,Ef fjölskylda mín veit að ég er með hreina samvisku gagnvart þessu, þá er ég sáttur."


Athugasemdir
banner
banner
banner