þri 15. apríl 2014 12:05
Hafliði Breiðfjörð
Siggi Jóns: Fólk grátandi og öskrandi í kringum okkur
Sigurður Jónsson á þeim árum er hann þjálfaði Víking. Hann lék með Sheffield Wednesday árið 1989 og var á vellinum þegar Hillsborough harmleikurinn átti sér stað en þar létust 96 stuðningsmenn Liverpool. Hann deilir upplifun sinni á Fótbolta.net í dag.
Sigurður Jónsson á þeim árum er hann þjálfaði Víking. Hann lék með Sheffield Wednesday árið 1989 og var á vellinum þegar Hillsborough harmleikurinn átti sér stað en þar létust 96 stuðningsmenn Liverpool. Hann deilir upplifun sinni á Fótbolta.net í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
,,Það er svo djúpt í minningunni þessi ungi strákur um tíu ára gamall sem var bara 10-15 metra frá okkur. Hann var alveg líflaus og það var verið að reyna að blása í hann lífi.''
,,Það er svo djúpt í minningunni þessi ungi strákur um tíu ára gamall sem var bara 10-15 metra frá okkur. Hann var alveg líflaus og það var verið að reyna að blása í hann lífi.''
Mynd: Getty Images
,,Svo gerði maður sér það fljótt grein fyrir því  þegar það var verið að lyfta mönnum líflausum yfir járngrindverkin sem þarna voru að þetta var eitthvað annað og alvarlegra. Þá braust út mikið panic og skelfing.''
,,Svo gerði maður sér það fljótt grein fyrir því þegar það var verið að lyfta mönnum líflausum yfir járngrindverkin sem þarna voru að þetta var eitthvað annað og alvarlegra. Þá braust út mikið panic og skelfing.''
Mynd: Getty Images
,,Ég  tók fullt af myndum af því þegar þetta var að brjótast út og næstu 10-15 mínúturnar. Ég átti filmurnar óframkallaðar í mörg ár.''
,,Ég tók fullt af myndum af því þegar þetta var að brjótast út og næstu 10-15 mínúturnar. Ég átti filmurnar óframkallaðar í mörg ár.''
Mynd: Getty Images
,,Ég vildi fyrst og fremst koma konunni heim og svo kom ég til baka að íþróttahúsinu þar sem var verið að bera líkin inn.''
,,Ég vildi fyrst og fremst koma konunni heim og svo kom ég til baka að íþróttahúsinu þar sem var verið að bera líkin inn.''
Mynd: Getty Images
,,Ég fór í þvílíkt sjokk yfir þessu, og allir í kringum okkur. Það var fólk grátandi og öskrandi í kringum okkur.''
,,Ég fór í þvílíkt sjokk yfir þessu, og allir í kringum okkur. Það var fólk grátandi og öskrandi í kringum okkur.''
Mynd: Getty Images
,,Svo var ég í sambandi við Bjarna Fel sem var að senda fréttir til Íslands. Við spjölluðum mikið um þetta og vorum báðir í miklu sjokki yfir þessu.'
,,Svo var ég í sambandi við Bjarna Fel sem var að senda fréttir til Íslands. Við spjölluðum mikið um þetta og vorum báðir í miklu sjokki yfir þessu.'
Mynd: Getty Images
,,Okkur bauðst að fá áfallaaðstoð til að vinna úr þessu. Ég sjálfur þáði það ekki, en það hefði verið mjög mikil þörf á því.''
,,Okkur bauðst að fá áfallaaðstoð til að vinna úr þessu. Ég sjálfur þáði það ekki, en það hefði verið mjög mikil þörf á því.''
Mynd: Getty Images
- Viðtalið var fyrst birt 20. apríl 2014 en er endurbirt í dag þegar 26 ár eru liðin frá slysinu.
„Þetta er djúpt grafið í minningunni og er skelfilegasti atburður sem ég hef upplifað á knattspyrnuvellinum. Það er alveg eins og þetta hafi gerst í gær," segir Sigurður Jónsson fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu sem var á vellinum fyrir 25 árum síðan þegar 96 stuðningsmenn Liverpool krömdust til bana í leik Liverpool og Nottingham Forest í undanúrslitum enska FA bikarsins.

Sigurður lék á þessum árum með Sheffield Wednesday en leikurinn fór fram á heimavelli þeirra, Hillsborough leikvangnum sem var einn sá stærsti í þá daga.

Ég settist niður með Sigurði og bað hann um að deila með mér upplifun sinni af þessum hörmungum. Við hefjum söguna daginn fyrir leik en Bjarni Felixson sem þá var íþróttafréttamaður RÚV lýsti leiknum beint af vellinum og gisti hjá Sigga dagana í kringum leikinn.

Mikill troðningur á leiðinni á völlinn
„Bjarni kom til mín og gisti hjá mér einum til tveimur dögum áður. Við áttum góða kvöldstund fyrir leikinn þar sem við fengum okkur að borða, spjölluðum mikið um enska fótboltann og sérstaklega þennan leik," sagði Sigurður.

„Þetta var algjör stórleikur. Ég var nýgiftur fyrrverandi eiginkonu minni þá. Ég var að spila á Sheffield Wednesday vellinum og því fengum við miða. Ég var samt ekki búinn að ákveða fyrr en deginum áður að skella okkur á leikinn. Þetta var fyrsti leikurinn sem við ákváðum að fara á saman."

„Þegar við fórum á völlinn lögðum við bílnum langt frá og þurftum að ganga töluverðan spöl á völlinn. Allt nágrenni Hillsborough var í rauðum fánum og gríðarleg stemmning og mikill mannfjöldi. Ástæða þess að Hillsborough var valinn var að þetta var einn af þeim völlum sem tók flesta áhorfendur í þá daga."

„Á leiðinni sá maður hópinn tvístrast, Nottingham áhorfendur fóru öðru megin og við löbbuðum með Liverpool áhorfendum því við ákváðum að fara inn þeim megin sem þeim var hleypt inn. Þá tók maður eftir að það var gríðarlegur fjöldi fyrir utan sem átti eftir að fara inn og mikill troðningur fyrir okkur að komast á völlinn og inn um þann inngang sem við fórum inn."


Fljótlega hrannaðist upp líflaust fólk á vellinum
Troðningur var orðinn mikill þegar leikurinn hófst en fljótlega var ljóst að eitthvað mikið var að og leikurinn var flautaður af sex mínútum síðar. Siggi og konan hans fengu sæti í Leppings Lane enda stúkunnar en aðeins 10-15 metrum frá voru hörmungarnar að gerast.

„Það voru búin að vera mikil læti á völlunum á Englandi á þessum árum og í fyrstu hélt ég, og margir í kringum okkur, að það væru að brjótast út einhver slagsmál og skrílsæti. Svo gerði maður sér það fljótt grein fyrir því þegar það var verið að lyfta mönnum líflausum yfir járngrindverkin sem þarna voru að þetta var eitthvað annað og alvarlegra. Þá braust út mikið panic og skelfing."

„Það er svo djúpt í minningunni þessi ungi strákur um tíu ára gamall sem var bara 10-15 metra frá okkur. Hann var alveg líflaus og það var verið að reyna að blása í hann lífi. Fljótlega hrannaðist upp fólk sem lá líflaust á vellinum rétt fyrir framan okkur. Þetta er djúpt grafið í minningunni og er skelfilegasti atburður sem maður hefur upplifað á knattspyrnuvellinum. Það er alveg eins og þetta hafi gerst í gær."

Tók fullt af myndum og átti filmurnar óframkallaðar í mörg ár
„Ég á ekki orð til að lýsa þessu, þetta var hörmulegt. Ég fór í þvílíkt sjokk yfir þessu, og allir í kringum okkur. Það var fólk grátandi og öskrandi í kringum okkur. Ég sat við hliðina á eiginkonunni sem ég var að bjóða á leik í fyrsta skipti og ég var í þvílíku sjokki. Það tók mörg ár áður en hún var tilbúin að fara aftur á fótboltaleiki."

„Mér fannst gaman að taka ljósmyndir á þessum tíma og var með myndavél og stóra linsu. Ég tók fullt af myndum af því þegar þetta var að brjótast út og næstu 10-15 mínúturnar. Ég átti filmurnar óframkallaðar í mörg ár."

„Ég fékk mig ekki til að framkalla þetta. Svo gerði ég það eftir mörg ár og skoðaði þessar myndir einu sinni en setti þær svo ofan í kassa og hef haft þær þar síðan. Þetta voru myndir af fólki sem var verið að blása lífi í og hörmungunum fyrir framan mig. Allar þessar myndir sem eru greyptar í hugann við að horfa á þetta eru sama myndefni sem ég var að taka myndir af."


Var í miklu uppnámi sjálfur
Sigurður var leikmaður í ensku úrvalsdeildinni á þessum tíma með Sheffield Wednesday og á meðan atburðunum stóð á vellinum voru allir leikmenn liðsins kallaðir út og beðnir að aðstoða við björgunarstörf.

„Ég vildi fyrst og fremst koma konunni heim og svo kom ég til baka að íþróttahúsinu þar sem var verið að bera líkin inn. Hjálp barst seint frá sjúkrahúsunum. Það var mikil traffík og fólk að fara frá leikvangnum sem hefur tafið helling að sjúkrabílarnir kæmust að leikvangnum. Það var ekki mikið af lærðu fagfólki á vellinum sjálfum og hefði örugglega verið hægt að bjarga fleiri mannslífum ef það hefði verið."

„Við vorum fyrir utan íþróttahúsið að hjálpa þeim sem voru að vinna á velllinum við að það færu ekki allir inn. Það voru margir sem voru bara forvitnir, en svo voru aðstandendur þarna líka sem var hleypt inn. Maður gat ekki mikið gert, ég var í miklu uppnámi sjálfur og vissi ekki hvað væri að gerast. Það var ekki fyrr en seinna um daginn að ég áttaði mig á að þetta voru svona margir sem dóu. Ég sá fólk sem var líflaust og það var verið að blása í það. Svo komu aðrir sem tóku við af okkur."

„Ég fór svo heim og fylgdist með í fréttum og útvarpi. Svo var ég í sambandi við Bjarna Fel sem var að senda fréttir til Íslands. Við spjölluðum mikið um þetta og vorum báðir í miklu sjokki yfir þessu. Fyrstu klukkutímana á eftir gerði ég mér ekki grein fyrir hversu hrikalegur atburður þetta var. Svo sökk það inn. Dagana á eftir var maður í þvílíku sjokki."


Þung spor að spila fyrsta leikinn
Tímabilinu á Englandi var ekki lokið og næstu dagana á eftir var nokkrum leikjum Sheffield Wednesday frestað á meðan leikmenn liðsins voru að vinna úr áfallinu, en svo tók lífið aftur sinn gang.

„Okkur bauðst að fá áfallaaðstoð til að vinna úr þessu. Ég sjálfur þáði það ekki, en það hefði verið mjög mikil þörf á því," sagði Siggi.

„Það var minningarathöfn sem var haldin fyrir alla aðstandendur Sheffield Wednesday. Það kom prestur sem hélt athöfnina á þeim hluta vallarins sem þetta gerðist. Svo var ákveðið að byrja aftur og það var mjög skrítin tilfinning."

„Það voru þung spor að spila fyrsta leikinn eftir þetta. Með allar þessar myndir greyptar í hugann. Það tók verulega á að hafa farið í gegnum þetta og sjá þetta svona nálægt. Það var mjög hljótt á vellinum í fyrstu leikjunum eftir þetta og þrungið andrúmsloft. Við vorum í úrvalsdeildinni þá og vorum alltaf með 30-40 þúsund manns á vellinum og alltaf gríðarleg stemmning. En það var öðruvísi þessa leiki á eftir."


Eins og þetta hafi gerst í gær
Harmleiksins hefur verið minnst árlega í kringum 15. apríl eftir þetta. Sigurður segir að hann muni atburðina ennþá eins og þeir hafi orðið í gær.

„Þetta kemur alltaf í hugann á þessum tíma árs þegar þetta kemur í fjölmiðlum. Sérstaklega núna þegar það eru 25 ár síðan þetta gerðist. Þetta er langur tími en það er eins og þetta hafi gerst í gær."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner