banner
   mán 14. júlí 2014 10:15
Arnar Daði Arnarsson
Kristinn Jakobs: Þetta leit ekki vel út
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Manuel Neuer, landsliðsmarkvörður Þjóðverja, var að margra mati heppinn að sleppa við rautt spjald í leik Þjóðverja og Argentínu í úrslitum HM í gærkvöldi.

Hár bolti barst inn fyrir vörn Þjóðverja sem Argentínumaðurinn Gonzalo Higuain elti. Neuer kom á blindu hlið Higuain á fullri ferð, kýldi boltann en lenti af fullu afli á Higuain sem lá eftir. Við fengum Kristinn Jakobsson FIFA-dómara til að segja sína skoðun á atvikunum.

,,Neuer fer út í boltann til að ná honum og slá hann í burtu. Þeir lenda saman eftir að hann nær boltanum. Neuer ætlaði aldrei að meiða Higuain. Það er alltaf hægt að segja ef og hefði og dómarinn hefði alveg getað metið þetta öðruvísi og dæmt á Neuer. Dómarinn mat þetta þannig að þetta hafi verið barátta um boltann og síðan hafi orðið slys eftir á. Þetta leit ekki vel út," segir Kristinn sem telur að það hefði verið full harður dómur að dæma vítaspyrnu á Neuer í þessu atviki.

,,Maður hefur séð dæmt víti á svona atvik. Ég hef séð í þessu móti allskonar atvik sem maður hefði eðlilega þótt eiga vera dæmd öðruvísi. Þetta er eitt af fjölmörgu atvikum sem hægt er að ræða um."

Kristinn segir að dómgæslan á mótinu heilt yfir hafi verið ágæt.

,,Miðað við það sem maður hefur séð í evrópskri dómgæslu þá hefur dómgæslan verið frábrugðið áherslum þaðan. UEFA hefur verið að leggja upp með töluvert harðari línu. Ástæðan fyrir því að maður hefur ekki séð mikið af gulum spjöldum fara á loft er að í svona stuttu móti þá vegur hver áminning mikið upp á leikbönn," segir Kristinn Jakobsson að lokum.
Taktu þátt í HM-umræðunni á Facebook! Smelltu hér til að fara á heimasvæði Fótbolta.net á Facebook þar sem oft skapast líflegar umræður um boltann.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner