mán 14. júlí 2014 12:00
Arnar Daði Arnarsson
Bjössi Hreiðars: Núna fer maður að spá í veðrið
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
,,Því miður er þetta búið. Það er átakanlega sorglegt þannig lagað. Núna fer maður að spá í veðrið sem allir hafa verið að tala um," segir Sigurbjörn Hreiðarsson, HM-sérfræðingur Fótbolta.net en nú er HM-keppninni búin eftir framlengdan úrslitaleik í gærkvöldi milli Þýskaland og Argentínu.

,,Mér fannst þetta þrælfínn úrslitaleikur. Það var hraði í honum og færi. Auðvitað voru liðin ekkert að taka alltof mikla áhættu. Þetta spilaðist eins og maður bjóst við. Þjóðverjarnir voru meira með boltann og Argentínumenn voru skipulagðir til baka og brunuðu síðan upp völlinn þegar þeir fengu tækifæri til," segir Sigurbjörn sem bjóst við að leikurinn færi í vítaspyrnukeppni miðað við gang leiksins.

,,Þá kemur þetta ótrúlega mark. Varamennirnir búa þetta mark algjörlega til, Schurrle og Götze. Menn sem hefðu verið búnir að spila allan leikinn hefðu aldrei náð að gera þetta. Þarna koma tveir varamenn inná sem gera það sem þeir eiga að gera, breyta leikjum. Það stendur uppúr," segir Sigurbjörn sem finnst Þjóðverjarnir verðskuldaðir Heimsmeistarar.

,,Heilt yfir voru Þjóðverjarnir sterkastir á þessu móti. Það voru margir leikmenn að spila mjög vel, liðsheildin er frábær og þeir eiga þetta fyllilega skilið."

Lionel Messi var valinn besti leikmaður mótsins að leik loknum. Sigurbjörn er ekki sammála því vali.

,,Messi tók eina og eina rispu í leiknum í gær. Það geislar ekki af honum eins og maður er vanur að sjá. Ég veit ekki hvort það sé of mikil pressa á að feta í fótspor Maradona. Það var of langt á milli þess sem Messi gerði eitthvað í leiknum og þá var hann heldur ekkert að gera eitthvað að viti. Í 3-4 skipti gerði Messi sig líklegan en þá gerðu Þjóðverjarnir vel og lokuðu á hann. Maður vill sjá meira því hann hefur sýnt manni að hann getur gert ótrúlega hluti og maður var að svolítið að bíða eftir því. Hann er auðvitað með liðið á herðunum þannig lagað. Hann ber upp sóknarleik liðs í úrslitaleik þar sem hann er að mæta liði sem er uppfullt af frábærum leikmönnum og íþróttarmönnum. Það er ekkert auðvelt. Það er hægt að rakka hann niður en hann fer alla lið í úrslitaleik með Argentínu."

,,Hann var valinn bestur en ég er ekki sammála því vali. Hann hefur heillað einhverja. Mér fannst Neuer alveg frábær. Miðjumennirnir hjá Þýskalandi Kroos og Schweinsteiger einnig mjög öflugir. Það er komin einhver tilfinning hjá mér með Neuer að hann reddar nánast öllu. Það eru nokkrir sem komu til greina en fyrst að Þjóðverjarnir unnu mótið þá fannst mér Neuer eiga það skilið að vera valinn bestur,"
segir Sigurbjörn.

En var þetta besta Heimsmeistaramótið frá upphafi?

,,Mótið byrjaði ótrúlega vel. Fyrstu tvær umferðirnar í riðlunum voru mjög góðar. Þriðja umferðin fannst mér ekkert spes. Þar voru of mörg lið komin áfram og hjartað sló ekkert hraðar á þeim leikjum. Síðan duttum við í eðlilega HM-keppni í úrslitakeppninni. Þetta var rosalega skemmtileg keppni en hvort þetta hafi verið sú besta veit ég ekki. Þetta var að minnsta kosti betri keppni en síðast," segir Sigurbjörn Hreiðarsson að loknu Heimsmeistaramótinu í Brasilíu 2014.
Taktu þátt í HM-umræðunni á Facebook! Smelltu hér til að fara á heimasvæði Fótbolta.net á Facebook þar sem oft skapast líflegar umræður um boltann.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner