Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 22. júlí 2014 11:00
Fótbolti.net
Uppgjör umferðarinnar - Grjóthaltu kjafti!
Stjórnarmenn FH voru skrautlegir í stúkunni í Kópavogi og formaður aðalstjórnar félagsins gerði leit að eftirlitsmanni KSÍ til að koma með athugasemdir yfir dómgæslunni.
Stjórnarmenn FH voru skrautlegir í stúkunni í Kópavogi og formaður aðalstjórnar félagsins gerði leit að eftirlitsmanni KSÍ til að koma með athugasemdir yfir dómgæslunni.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Jonathan Hendrickx með rauða spjaldið sem slegið var úr höndum dómarans.
Jonathan Hendrickx með rauða spjaldið sem slegið var úr höndum dómarans.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Þórs og Keflavíkur sem endaði 0-0.
Úr leik Þórs og Keflavíkur sem endaði 0-0.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Big Willum.
Big Willum.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Eftir hverja umferð í Pepsi-deildinni gerir Fótbolti.net upp umferðina á hressandi hátt. Þetta er allt til gamans gert og ber oft á tíðum ekki að taka of hátíðlega. Hér að neðan má sjá punkta úr 12. umferðinni sem kláraðist í gær.

Leikur umferðarinnar: Breiðablik 2 - 4 FH
„Þessi leikur hefur allt! Reiðan formann, mörk, rautt spjald, árás á dómara, og Heimir Guðjóns búinn að segja stúkunni að grjóthalda kjafti!," skrifaði Blikinn Egill Einarsson um frábæran leik Breiðabliks og FH.

Þjálfari umferðarinnar: Öskrandi Heimir Guðjónsson
Þrátt fyrir að vera tíu gegn ellefu stærstan hluta leiksins náðu FH-ingar þremur stigum gegn Breiðabliki. Það var mikill hiti í mönnum og Heimir lét meðal annars stúkuna heyra það. Heimir öskraði "Grjóthaltu kjafti!" upp í stúkuna. Áhorfendur gripu þetta að sjálfsögðu fegins hendi og í hvert sinn sem Heimir gerði eitthvað eftir þetta þá var öskrað "Grjóthaltu kjafti!" úr stúkunni. Heimir svaraði því með því að rétta þumalinn upp.

Þingmaður umferðarinnar: Willum Þór Þórsson
Heimir Guðjóns og aðstoðarþjálfari Blika sem er jafnframt fimmti þingmaður Suðvesturkjördæmis áttu góða seríu í síðari hálfleik þar sem hvor um sig stóð við endann á sínu þjálfaraboxi og öskraði af lífs og sálarkröftum á hinn. Endaði með því að aðstoðardómarinn þurfti að taka báða á teppið því Þorvaldur dómari átti fullt í fangi með leikinn.

Eltingaleikur umferðarinnar: Gunnleifur og Atli
Fjórða mark FH kom eftir að Gunnleifur markvörður hafði farið fram í sóknina. Blikar töpuðu boltanum og Gunnleifur reyndi að hlaupa Atla Guðnason uppi en það minnti einfaldlega á atriði úr Looney Tunes þar sem Wile E. Coyote og The Roadrunner voru að glíma. Mjög fyndið atvik.

Atvik umferðarinnar: Kassim fékk rauða spjaldið
Kassim "The Dream", varnarmaður FH, fékk tvö gul og þar með rautt í fyrri hálfleik. Dómar sem ekki er hægt að setja út á. Kassim brást illa við og sló rauða spjaldið úr hendi dómarans og fær líklega aukaleik í bann.

Mark umferðarinnar: Kjartan Henry Finnbogason
Kjartan var valinn í vonbrigðalið fyrri hluta mótsins en svaraði því strax með frábærum leik þegar KR vann 4-1 sigur gegn andlausu liði Vals. Hann skoraði mark umferðarinnar með fallegri klippu.

Ekki mark umferðarinnar: Elfar Freyr Helgason
Blikar héldu að þeir hefðu jafnað metin í 3-3 gegn FH Þorvaldur Árnason dómari taldi um brot að ræða. Afar strangur dómur. Afar strangur. Reyndar líklega rangur.

Andleysi umferðarinnar: Fram og Valur
Jafntefli í þessari keppni. Fram tapaði fyrir ÍBV í Eyjum og Valur fyrir KR.

Ekki liðið:
Björn Hákon Sveinsson (Fylkir)

Ingi Freyr Hilmarsson (Þór) - Magnús Már Lúðvíksson (Valur) – Ingiberg Ólafur Jónsson (Fram) – Tómas Joð Þorsteinsson (Fylkir)

Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik) – Jóhannes Karl Guðjónsson (Fram) – Kristinn Ingi Halldórsson (Valur)

Arnar Sveinn Geirsson (Valur) – Kolbeinn Kárason (Valur) – Christopher Tsonis (Fjölnir)

Neuer umferðarinnar: Hörður Fannar Björgvinsson
„Boltasækjararnir spurðu mig hvort ég væri Neuer. Tók því greinilega of vel," sagði þessi ungi markvörður Fram sem tók glórulaust skógarhlaup út úr vítateig sínum, misreiknaði knöttinn og fékk á sig mark.

Fundahaldari umferðarinnar: Þóroddur Hjaltalín
„Viltu ekki fá fundarborð svo menn geti fengið sér sæti?" öskraði áhorfandi í Vestmannaeyjum á Þórodd Hjaltalín dómara. Þóroddur var mikið fyrir að ræða málin og drap það niður tempó í leiknum. Eins og Pepsi-mörkin tóku vel fyrir í gær er þetta of algengt hjá íslenskum dómurum í dag.

Dómari umferðarinnar: Kristinn Jakobsson
Það var ekki erfitt að velja dómara umferðarinnar. Kiddi Jak bar höfuð og herðar yfir aðra í þessari umferð fyrir dómgæsluna í Fylkir - Stjarnan. Fær kúdos fyrir að hafa ekki dæmt aukaspyrnu þegar Björn Hákon markvörður var með smjör á hönskunum.

Tuðari umferðarinnar: Orri Hjaltalín
Þórsarinn Orri hefur brjálast yfir ótrúlega mörgum augljósum dómum í sumar, hvort sem um er að ræða spjöld eða vítaspyrnudóma. Óhætt er að segja að mótmæli missi marks þegar hann mótmælir öllum dómum á hans lið. Hann stökk að dómaranum eftir vítaspyrnudóminn gegn Keflavík þó hann hafi verið eins réttur og þeir verða.

Vallarþulur umferðarinnar: Björn Malmquist
Fréttamaðurinn er einnig vallarþulur í Víkinni og notaði lúmskar aðferðir til að berja í hljóðnemann til að gefa trommuslátt í stuðningi sínum við Víkingsliðið. Á endanum náði Víkingur í stigin þrjú með sigurmarki fyrirliðans Igor Taskovic í blálokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner