Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 22. júlí 2014 12:30
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 12. umferð: Heima er best
Arnar Már Björgvinsson (Stjarnan)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Ívar Atli Sigurjónsson
,,Þegar við byrjuðum að setja aðeins á þá, þá gekk þetta strax. Við uppskárum tvö mörk fljótlega eftir að við gengum á bragðið," sagði Arnar Már Björgvinsson besti leikmaður 12. umferðar í Pepsi-deild karla.

Arnar Már skoraði fyrsta mark Stjörnunnar og lagði upp annað mark mínútu síðar í 3-1 sigri liðsins á Fylki í Árbænum.

Ánægður með Kidda Jak

,,Mér fannst við koma værukærir inn í leikinn. Það var deyfð yfir þessu hjá okkur, kannski skiljanlegt eftir erfiðan Evrópuleik á undan en síðan áttuðu menn sig á því að við vorum ekkert eins þreyttir og við héldum að við værum," sagði Arnar Már sem skoraði nokkuð auðvelt mark eftir að Björn Hákon markvörður Fylkis missti boltann í baráttunni við sóknarmann Stjörnunnar.

,,Ég er hrikalega ánægður út í Kristin Jakobsson dómara að hafa ekki dæmt á þetta því markmaðurinn var aldrei með boltann. Það er alveg óþolandi hvað markmenn eru alltaf heilagir í þessum atriðum. Mér fannst markmaðurinn aldrei ná að grípa boltann."

Stjarnan tvöfaldaði forystu sína strax í næstu sókn eftir fyrsta markið og þar lagði Arnar Már boltann til hliðar á Rolf Toft sem skoraði í sínum fyrsta leik fyrir Stjörnuna.

,,Þetta gerðist hratt. Ég hefði kannski átt að klára þetta sjálfur en ég ákvað að leyfa Dananum að koma sér á bragðið í deildinni í sínum fyrsta leik."

Gengur vel þegar það er gaman

,,Ég var mjög ánægður með mína spilamennsku í leiknum. Ég hef verið á góðu skriði í undanförnum leikjum og vonandi næ ég að halda því áfram. Það er einhver hressleiki yfir manni í sumar, það er gaman í Stjörnunni og þegar svo er, þá gengur manni vel," sagði Arnar Már sem ákvað að koma heim í Garðabæinn fyrir þetta tímabil eftir að hafa spilað með Breiðablik og Víking Ó. síðustu ár. ,,Verður maður ekki að segja það, að heima sé best."

Arnar Már er á leiðinni til Hollands í ágúst í nám. Hann segir erfitt að hugsa til þess að þurfa yfirgefa Stjörnuna áður en mótið klárast miðað við stöðu liðsins í deildinni þessa stundina en liðið er í harðri baráttu við FH um efsta sætið.

,,Ég er að fara út í nám eftir tæpan mánuð og ég er ekki alveg viss hversu mörgum leikjum ég næ í viðbót. Ég stefni á að halda áfram að raða inn mörkum þangað til ég fer."

,,Ég sá þetta ekki alveg svona fyrir þegar ég ákvað að fara í nám erlendis. Ég verð hinsvegar að bíta í það súra epli núna og koma aftur sterkur á næsta ári. Ég hef mikið hugsað út í þetta síðustu daga en ég er búinn að taka ákvörðun að fara út. Það er erfitt að hugsa til þess að fara og missa af lokasprettinum í deildinni. Þetta er alveg skelfilegt."

Vorum teknir í rassgatið

Stjarnan keppir á fimmtudaginn seinni leikinn gegn Motherwell í forkeppni Evrópukeppninnar. Fyrri leikurinn endaði með 2-2 jafntefli ytra og er Stjarnan því í frábærri stöðu fyrir heimaleikinn.

,,Það er klikkuð spenna fyrir þessum leik á fimmtudaginn. Við erum í rosalegum séns. Eins og staðan er núna þá erum við áfram. Við verðum hinsvegar að ná fyrsta markinu og gera þetta erfitt fyrir þá. Við létum þá taka okkur illa í rassgatið fyrstu 20 mínúturnar í Skotlandi. Það gekk hinsvegar ágætlega eftir það," sagði Arnar sem býst við miklu fjöri í Garðabænum á fimmtudaginn.

,,Ég vonast eftir þvílíkri stemningu á fimmtudaginn. Maður heyrði ekki í sjálfum sér í fyrri leiknum og ég vona að Silfurskeiðin geri betur en það á fimmtudaginn,” sagði Arnar Már að lokum í samtali við Fótbolta.net

Sjá einnig:
Leikmaður 11. umferðar - Aron Elís Þrándarson (Víkingur R.)
Leikmaður 10. umferðar - Jeppe Hansen (Stjarnan)
Leikmaður 9. umferðar - Kristján Gauti Emilsson (FH)
Leikmaður 8. umferðar - Aron Elís Þrándarson (Víkingur)
Leikmaður 7. umferðar - Pape Mamadou Faye (Víkingur)
Leikmaður 6. umferðar - Veigar Páll Gunnarsson (Stjarnan)
Leikmaður 5. umferðar - Ögmundur Kristinsson (Fram)
Leikmaður 4. umferðar - Ólafur Karl Finsen (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Elías Már Ómarsson (Keflavík)
Leikmaður 2. umferðar - Jonas Sandqvist (Keflavík)
Leikmaður 1. umferðar - Mads Nielsen (Valur)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner