banner
   fös 22. ágúst 2014 08:30
Fótbolti.net
Myndir: Fótbolti.net á fótboltaleik á Litla Hrauni
Knattspyrnufélagið Betri burstaði Fylki á Litla Hrauni
Frá leik Fylkis og Knattspyrnufélagsins Betri í júlí. Að baki vallarins má sjá fangelsinsbygginguna.
Frá leik Fylkis og Knattspyrnufélagsins Betri í júlí. Að baki vallarins má sjá fangelsinsbygginguna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús Ingvarsson þjálfari fangaliðsins segir að það séu um 15-20 manna kjarni sem mæti á æfingarnar sem eru alla mánudaga og margir mjög frambærilegir leikmenn hjá Betri.
Magnús Ingvarsson þjálfari fangaliðsins segir að það séu um 15-20 manna kjarni sem mæti á æfingarnar sem eru alla mánudaga og margir mjög frambærilegir leikmenn hjá Betri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikill fjöldi áhorfenda er á leikjum liðsins en staðið er í öllum gluggum.
Mikill fjöldi áhorfenda er á leikjum liðsins en staðið er í öllum gluggum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nýlega fór fram stórleikur á Litla Hrauni er eldri flokkur Fylkis kom og lék við heimamenn, Knattspyrnufélagið Betri. Leikurinn er einn af nokkrum í sumar sem fram fer á þessum glæsilega gervigrasvelli sem Knattspyrnuvinafélag Litla Hrauns stóð að og var vígður sumarið 2012.

Spilaður er 7 manna bolti og fékk Hafliði Breiðfjörð frá Fótbolta.net að fylgjast með leiknum og birtast hér nokkar ritskoðaðar myndir af þessari stórviðureign Fylkismanna við Betri.

Það var yfirþjálfari þeirra Betri manna, Magnús Ingvason, sem stýrði sínum mönnum til sigurs en leikurinn endaði 9-2. Magnús gjörþekkir Fylkisliðið og hefur greinilega verið búinn að leggja leikskipulag sem algjörlega gekk upp. Betri menn yfirspiluðu Fylkismenn á köflum enda þekkja þeir vallaraðstæður vel og voru hvattir áfram af heimamönnum, utan dyra og innan.

Magnús segir að þetta hafi verið alltof auðveldur sigur. Fylkismenn voru greinilega búnir að vanmeta heimamenn, en í liði Fylkis voru leikmenn sem hafa spilað með meistaraflokk Fylkis eða öðrum liðum. Magnús segir einnig að það séu um 15-20 manna kjarni sem mæti á æfingarnar sem eru alla mánudaga og margir mjög frambærilegir leikmenn hjá Betri. Nú er markmiðið að reyna að halda úti æfingum vel inn í haustið og í ágúst og september verða nokkrir leikir.

Gunnar Svavarsson, verkfræðingur úr Hafnarfirði hefur verið hvatamaður að aukinni knattspyrnuiðkun á Litla Hrauni. „Á sínum tíma, er ég var hjá Aðalskoðun, fór ég með lið einu sinni á ári til að leika góðgerðarleik á Litla Hrauni og þá sá ég hvernig aðstæður til knattpyrnuiðkunar voru í fangelsisgarðinum, í nær 20 ár urðu engar breytingar. Þegar ég var á Alþingi þá fann ég ekki fyrir skilningi á þessum málum heldur," sagði Gunnar.

,,Ég ákvað því að gefa mér það í 50 ára afmælisgjöf að vinna að því að setja upp gervigrasvöll, stofnaði Knattspyrnuvinafélag Litla Hrauns og fór ég, einn með sjálfum mér, af stað með aðstoð og hvatningu m.a. frá KSÍ og UEFA að safna fjármunum. Sem betur fer tókst það og völlurinn var vígður sumarið 2012, eftir 2 ára þrotlausa góðgerðarvinnu. Fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar sáu sér fært að koma að þessum málum enda kostnaðar á annan tug milljóna.“

„Ég hef ekkert verið að flíka þessu,“ bætir Gunnar við „enda verkefnið meira eitthvað sem mér fannst að þyrfti að gefa af sér í og ég var ekki að ætlast til að allir skildu það. Heldur er þetta verkefni sem heldur áfram ef viljinn er fyrir hendi. Síðasta sumar héldum við úti æfingum með gestaþjálfurnum og þá komu um 30 félagar úr þjálfarastéttinni og gáfu af sér að stýra einni eða fleiri æfingum á vellinum. Það gerðu þau öll einungis með þakklætið að gjöf.“

Þá segir Gunnar að hann hafi gert þetta í góðri samvinnu við fangelsismálayfirvöld og ekki hvað síst líka fyrir hvatningu þeirra Hermanns Gunnarssonar heitins og Halldórs í Henson sem fóru af stað með álíka verkefni fyrir 20 árum. Þeir félagar voru sérstakir heiðursgestir við vígsluna.

Sumarið 2014 eru því fjórir þjálfarar starfandi á vegum Knattspyrnuvinafélags Litla Hrauns, þeir Magnús Ingvason, Ólafur Ingvar Guðfinnsson, Sigurður Þórir Þorsteinsson og Lárus Rúnar Grétarsson og haldið er úti æfingum vikulega. Stefnt er að nokkrum heimaleikjum í haust og mega áhugasamir hafa samband við Gunnar (696 3350) eða Magnús Ingvason yfirþjálfara (862 7610), ef það er boðlegt lið, sem uppfyllir kröfur, sem getur komið og spilað. Æfingarnar og leikirnir eru allir í anda þess að um er að ræða samfélagsverkefni.
Athugasemdir
banner
banner
banner