banner
   fim 16. október 2014 22:04
Brynjar Ingi Erluson
Vålerenga hafnaði tveimur tilboðum í Viðar Örn
Mynd: Kenneth Myhre - Kennethmyhre.net
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Norska úrvalsdeildarfélagið Vålerenga hefur hafnað tveimur tilboðum í Viðar Örn Kjartansson, framherja félagsins en þetta staðfesti Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Viðars við Nettavisen í dag.

Viðar Örn, sem er 24 ára gamall, gekk til liðs við Vålerenga frá Fylki fyrir tímabilið í Noregi en sá hefur heldur betur slegið í gegn.

Hann er kominn með 24 mörk í 25 leikjum á þessu tímabili og hefur því skiljanlega vakið mikinn áhuga félaga í sterkari deildum.

Vålerenga hefur þegar hafnað tveimur tilboðum í Viðar en bæði tilboðin komu frá Þýskalandi.

,,Það komu tvö tilboð frá þýskum félögum í síðasta félagaskiptiglugga en Vålerenga hafnaði báðum tilboðum. Viðar var ekkert ósáttur við það, hann skildi félagið vel," sagði Ólafur Garðarsson.

,,Maður veit ekki hvað gerist í janúar, það eru mörg félög að fylgjast með honum í hverjum leik. Það er stór munur á því að hafa áhuga og leggja fram tilboð."

Ólafur segir að félög frá Englandi, Hollandi, Þýskalandi, Spáni og Rússlandi hafi áhuga á framherjanum frábæra.

Kjetil Rekdal, þjálfari Vålerenga, vildi ekki tjá sig mikið um Viðar þegar Nettavisen ræddi við hann.

,,Ég vil lítið tjá mig um þetta, við höfum ekkert um þetta að segja. Spilar hann með Vålerenga á næsta tímabili? Hann er samningsbundinn félaginu, svo ég hef trú á því að hann spili hér en maður veit svosem aldrei," sagði Rekdal.
Athugasemdir
banner
banner