sun 19. október 2014 23:30
Elvar Geir Magnússon
Geir Þorsteins: Alltaf reynt að verða við óskum þjálfara
Heimir Hallgrímsson, Lars Lagerback og Geir Þorsteinsson.
Heimir Hallgrímsson, Lars Lagerback og Geir Þorsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lars Lagerback landsliðsþjálfari.
Lars Lagerback landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Lars færði okkur nýjar víddir sem við höfðum ekki á Íslandi," sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu FM 97,7 á laugardag. Hann var þar spurður út í ráðninguna á Lars Lagerback.

„Þetta er ein af farsælli ákvörðunum sem við höfum tekið. Ég hafði ákveðna sýn á þetta verkefni þegar við fórum í þennan leiðangur. Ég get alveg upplýst það núna að ég var búinn að tala við Heimi (Hallgrímsson) áður og biðja hann um að koma að starfinu. Ég hafði fastmótaðar hugmyndir að því hvernig þetta gæti orðið. Ég tel það líka hafa verið afar farsæla ákvörðun að fá Heimi og þeir vinna afar vel saman og eru öflugir."

Áður en Lagerback var ráðinn með Heimi sem aðstoðarmann hafði Geir meðal annars fundað með Roy Keane.

„Í mínum huga var það ljóst að Lars var númer eitt. Ég hafði kynnst honum í gegnum starf mitt og þetta var bara spurning um fjárhagslegu hliðina."

Mikið hefur verið rætt um hversu vel hefur tekist að lyfta up fagmennskunni í kringum landsliðið.

„Lars kom með sína sýn og sínar óskir. Það hefur alltaf verið þannig að við höfum reynt að koma til móts við óskir okkar landsliðsþjálfara. Ekki bara Lars heldur allra sem hafa starfað. Lars hefur reynslu af stærra liði og þekkingu og hann og Heimir setja fram ýmsar kröfur. Við erum alltaf að reyna að verða að óskum þeirra. Við höfum virkilega gefið í með landsliðið og það sýna reikningar en það var líka okkar markmið. Við erum að sjá árangur þeirra fjármuna sem við höfum lagt í þetta," sagði Geir.

Í viðtalinu talaði hann einnig um stemninguna meðal áhorfenda og hvað stuðningur þeirra hefur mikið að segja.

„Okkur hefur loksins tekist að fá eins öflugan stuðning, hann hefur aldrei verið eins góður og hann er núna. Þetta er alveg nýtt og hefur mikið að segja."

Smelltu hér til að hlusta á ítarlegt viðtal við Geir úr útvarpsþætti okkar á X-inu í gær en þar var mikið rætt um framtíð Laugardalsvallar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner