mið 22. október 2014 12:00
Magnús Már Einarsson
Rúnar Kristins: Hef ekki fengið tilboð frá Lilleström
Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, segir ekki rétt að búið sé að ganga frá því að hann taki við norska félaginu Lilletröm eftir tímabilið. Rúnar hefur sterklega verið orðaður við Lilleström að undanförnu en hann segir ekkert vera í hendi ennþá.

,,Ég hef ekki fengið tilboð um starfið og ég er ekki búinn að skrifa undir eitt né neitt," sagði Rúnar við Fótbolta.net í dag en þá var hann staddur í fríi hjá syni sínum í Kaupmannahöfn.

,,Það er voða lítið hægt að tjá sig um mín mál fyrr en eftir einhverja daga. Ég vil helst ekki tala um þetta þegar er ekkert í hendi. Ég veit af þeir hafa áhuga á að setjast niður með mér en þetta hefur verið í rólegum farvegi undanfarna daga. Vonandi skýrist eitthvað á næstu dögum."

KR-ingar eru þegar farnir að skoða mögulega eftirmenn Rúnars ef hann hverfur á braut. Rúnar er með nýtt samningstilboð í hendi frá KR en hann reiknar með að svara félaginu á næstu dögum.

,,Það skýrist á næstu dögum hvað verður gert með mig og KR. Það er auðvitað pressa þar líka," sagði Rúnar.

Bjarni Guðjónsson, fyrrum fyrirliði KR, hefur helst verið orðaður við þjálfarstöðuna hjá KR ef að Rúnar fer frá félaginu til Noregs.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner