fös 24. október 2014 12:03
Jóhann Óli Eiðsson
Dóms beðið í máli Grindavíkur gegn Guðjóni
Jóhann Óli skrifar úr Hæstarétti
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Milan Stefán Jankovic
Milan Stefán Jankovic
Mynd: Úr einkasafni
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nú í morgun fór fram málflutningur fyrir Hæstarétti í áfrýjun Grindavíkur gegn Guðjóni Þórðarsyni. Guðjón höfðaði mál í júní í fyrra til innheimtu launa og skaðabóta. Féll dómur í héraði þann 7. mars 2014 þar sem Grindavík var dæmt til að greiða honum 8,8 milljónir.

Í nóvember 2011 höfðu aðilar gert með sér þriggja ára samning þess efnis að Guðjón tæki að sér stjórn knattspyrnuliðs meistaraflokks karla auk þess að hafa yfirumsjón með þjálfun 2. flokks. Laun Guðjóns hljóðuðu upp á 400.000. kr.- á mánuði auk húsnæðis, bifreiðar, bensínkorts og símainneignar.

Í 2. gr. samnings aðila sagði svo; „Báðum aðilum er heimilt að segja upp launalið samningsins á tímabilinu 1. okt. til 15. okt. ár hvert á samningstímanum. Takist ekki samningar fyrir 30. október þar á eftir um nýjan launalið skulu skyldur samningsaðila falla niður frá og með þeim degi þegar þrír almanaksmánuðir eru liðnir frá uppsögn launaliðar.“

Deilt um túlkun á 2. gr.
Eftir fall Grindavíkur úr úrvalsdeild sumarið 2012 sagði Grindavík upp launalið samningsins með bréfi til Guðjóns. Í því bréfi sagði meðal annars að „takist ekki samningar um nýjan launalið fyrir 30. október 2012 skulu skyldur samningsaðila falla niður frá og með þeim degi þegar þrír almanaksmánuðir eru liðnir frá uppsögn launaliðar."

Á fundi aðila 4. október 2012 var lagður fram starfslokasamningur sem óumdeilt er að aldrei var undirritaður. Daginn eftir sendi lögmaður Guðjóns Grindvíkingum bréf þess efnis að honum hefði verið veitt umboð til að semja um nýjan launalið en 8. október sendi hann annað bréf og sagði viðræðurnar tilgangslausar og til málamynda.

23. október 2012 gerði Grindavík Guðjóni tilboð þess efnis að laun hans myndu lækka niður í 65.000. kr.- á mánuði án allra hlunninda. Starfskyldur Guðjóns yrðu að vera tæknilegur ráðgjafi fyrir meistaraflokk og 2. flokk eftir því sem óskað yrði. Væri honum jafnframt frjálst að ráða sig annað. Var tilboði þessu hafnað.

Guðjón höfðaði dómsmál í júní 2013 til innheimtu þeirra launa sem hann taldi sig eiga inni. Heildarkrafan hljóðaði upp á 12,5 milljónir króna, 8,8 milljónir fyrir vangoldin laun og 3,7 milljónir í skaðabótagreiðslur vegna húsnæðisins. Niðurstaða héraðsdóms hefur áður verið tilgreind.

„Engin samningskylda hvíldi á Grindavík“
Í máli lögmanns áfrýjanda fyrir Hæstarétti í morgun kom fram að uppsögn samningsins hefði verið í fullu samræmi við það sem í honum stóð. Launaliðnum hefði verið sagt innan þess tíma sem tilgreindur var og í kjölfar þess að samningaviðræður fóru út um þúfur hafi samningurinn fallið úr gildi.

Grindavík hefði staðið við sinn hluta samningsins og greitt Guðjóni laun út þann tíma sem tilgreindur er í 2. gr. samningsins. Jafnframt var því mótmælt að samningsviðræður hefðu eingöngu verið til málamiðlana og bent á að Milan Stefán Jankovic var ekki ráðinn til liðsins fyrr en í janúar 2013 eins og kom fram á vef Grindavíkur.

Í dómsorði héraðsdóms má finna eftirfarandi texta; „Fyrrnefnt ákvæði 2. gr. ráðningarsamningsins þykir verða að skýra svo, í ljósi þess að ákvæðið veitti aðilum eingöngu heimild til uppsagnar á launalið samningsins en ekki samningnum í heild, að á stefnda, sem ákvað að nýta sér heimild til uppsagnar á launaliðnum, hafi hvílt skylda til að reyna að ná samningi við stefnanda um nýjan launalið.“

Benti hann á að það væri samningsfrelsi væri meginregla í íslenskum rétti. Ekki væri hægt að leggja skyldu á neinn til samninga nema með að semja svo um eða að sú skylda væri beinlínis lögbundin. Yrði því að telja þessa niðurstöðu héraðsdóms í hæsta máta undarlega.

„Samningsviðræður eingöngu til málamynda“
Er hann hafði lokið máli sínu steig lögmaður stefnda upp í pontu. Benti hann á nýjan leik á að viðræður hefðu eingöngu verið til málamynda og vísaði máli sínu til stuðnings í frétt Víðis Sigurðssonar sem birtist á mbl.is og í Morgunblaðinu þann 6. október 2012.

Þar kom fram að ljóst væri að Guðjón myndi ekki stýra Grindavík áfram og að aðeins ætti eftir að semja um starfslok hans hjá félaginu. Í niðurlagi fréttarinnar er tekið fram að formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur hafi einnig staðfest að Milan Stefán Jankovic yrði næsti þjálfari liðsins. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi dró formaðurinn úr þessum orðum og sagði blaðamann hafa mistúlkað orð sín.

Fréttin var birt á milli tölvuskeyta lögmanns Guðjóns þann fimmta og áttunda október. Lögmaðurinn benti á fyrir réttinum í morgun að með þessu hefði Grindavík farið á svig við efni samningsins. Félagið hefði ekki eingöngu sagt um launalið samningsins heldur sagt honum upp í heild sinni án þess að hafa heimild til þess. Væri sú uppsögn ólögmæt og því skaðabótaskyld.

Hann dró það einnig í efa að Milan Stefán hefði verið ráðinn í janúar 2013 og taldi það hafa gerst mun fyrr. Grindavík hefði ekki lagt samning þeirra í milli fram fyrir dómi og yrði því að bera hallan af því.

Að endingu sagði hann að tilboð Grindavíkur þann 23. október 2012 afar slæmt fyrir skjólstæðing sinn. Guðjón hefði haft það sem aðalatvinnu síðastliðin 24 ár að stýra knattspyrnuliðum. Með því að vera tæknilegur ráðgjafi hjá einu liði væri útséð með að ekkert annað lið myndi vilja ráða hann sem þjálfara.

Að máli loknu fékk lögmaður áfrýjanda tækifæri til að gera athugasemdir við ræðu lögmanns stefnda. Sagði hann meðal annars að samningur Grindavíkur og Milan Stefáns væri trúnaðarmál sem kæmi máli þessu ekkert við. Grindavík væri heimilt að ráða eins marga þjálfara og félagið kysi, eins lengi og það kysi.

Lögmaður stefnda kaus að gera engar athugasemdir. Í kjölfarið var málið dómtekið og er niðurstöðu dómsins að vænta áður en langt um líður.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner