fös 24. október 2014 12:00
Magnús Már Einarsson
Arnar Grétars: Gerðum allt til að halda Finni
Finnur Orri Margeirsson.
Finnur Orri Margeirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
,,Hann er búinn að vera einn af lykilmönnum liðsins síðustu ár. Auðvitað eru þetta vonbrigði," segir Arnar Grétarsson þjálfari Breiðabliks eftir að ljóst varð að fyrirliðinn Finnur Orri Margeirsson er á förum frá félaginu. Allt bendir til þess að Finnur gangi í raðir FH.

,,Við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að reyna að halda honum. Í fótbolta er það þannig að leikmenn taka ákvörðun hvar þeir vilja vera og við þurfum að sætta okkur við það. Þetta þýðir að aðrir fá tækifæri og þurfa að stíga upp."

Arnar tók við þjálfun Breiðabliks á dögunum og hann ræddi við Finn Orra.

,,Honum fannst vera kominn tímapunktur hjá sér að breyta til eftir sjö ár í meistaraflokki Breiaðbliks. Við þurfum að skilja það og við óskum honum alls hins besta sem hann tekur sér fyrir hendur. Við vonumst bara til að sjá hann aftur síðar í græna búningnum."

,,Auðvitað vonaðist maður til þess að hafa áhrif til að fá hann til að vera áfram. Eftir að hafa spjallað við hann áttaði maður mig sig á þvi að honm fannst vera kominn tímapunktur á að breyta til og fara í nýtt umhverfi."

,,Ég hef verið í því að semja við leikmenn í Grikklandi og Belgíu undanfarin ár og ég hef alltaf sagt að við snúum ekki upp á hendina á einum né neinum. Ég vil hafa Finn á réttum forsendum í Breiðabliki. Ég vil ekki að hann verði ósáttur eftir 2-3 mánuði að hafa tekið þessa ákvörðun. Menn þurfa að vera ánægðir með sína ákvörðun."


Arnar óttast ekki að fleiri leikmenn muni feta í fótspor Finn og fara frá Blikum en þó er smá óvissa með Kristinn Jónsson sem var í láni hjá Brommapojkarna í Svíþjóð á nýliðnu tímabili og Árna Vilhjálmsson sem er á reynslu í Noregi þessa dagana.

,,Ég á ekki von á því að það séu aðrir að fara. Það er bara ef eitthvað kemur upp erlendis og það er eitthvað sem maður skilur. Allir alvöru knattspyrnumenn á Íslandi vilja spila erlendis og prufa sig á stærra sviði en Íslandi. Þegar kemur spennandi tækifæri fyrir leikmann þá þurfum við að vinna með leikmanninum í því ef að það er eitthvað sem félagið getur sætt sig við," sagði Arnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner