mán 24. nóvember 2014 10:37
Magnús Már Einarsson
Eiður nálægt því að semja við Bolton - „Algjör goðsögn"
Eiður í leik með Bolton á sínum tíma.
Eiður í leik með Bolton á sínum tíma.
Mynd: Getty Images
Góðar líkur eru á að Eiður Smári Guðjohnsen gangi til liðs við Bolton Wanderers á næstunni en hann fundaði með Phil Gartside formanni félagsins á föstudag.

Hinn 36 ára gamli Eiður spilaði með Bolton frá 1998 til 2000 en hann hefur æft með félaginu að undanförnu.

Neil Lennon, stjóri Bolton, vill skoða Eið í æfingaleik fyrir luktum dyrum í vikunni og í næstu viku mun hann spila með varaliðinu gegn Middlesbrough.

Dorian Dervete, leikmaður Bolton, telur að EIður geti styrkt leikmannahópinn mikið.

,,Hann er leikmaður sem myndi alltaf styrkja okkur. Við sjáum á næstu vikum hvort hann verði áfram hjá okkur en ég vona það. Hann er klassa leikmaður. Ég var með honum hjá Spurs á sínum tíma og hann hefur lítið breyst," sagði Dervete.

,,Hann er klókur leikmaður með góða yfirsýn og ég held að hann yrði góð viðbót við hópinn. Hann hefur smollið vel inn í hópinn."

,,Hann er leikmaður sem hægt er að treysta þegar þú sendir á hann. Hann getur komið með úrslitasendinguna. Ég tel að hann sé jafn góður og hann var áður."


Andy Lonergan, markvörður Bolton, er einnig hrifinn af Eiði Smára.

,,Hann er algjör goðsögn. Það er frábært að geta æft með honum, sama hvort hann skrifar undir eða ekki. Við getum ekki hætt að spyrja hann út í Barcelona," sagði Lonergan.

,,Ég gat ekki beðið eftir að spila gegn honum. Við höfum barist á æfingu en hann hefur ekki skorað oft hjá mér."
Athugasemdir
banner
banner
banner