Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 23. mars 2015 16:55
Magnús Már Einarsson
Spilar Kristján Flóki með FH en ekki Breiðabliki í sumar?
Er Kristján Flóki á leið í FH á nýjan leik.
Er Kristján Flóki á leið í FH á nýjan leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frétt á heimasíðu Breiðabliks í síðustu viku.  Þar kemur fram að Kristján Flóki hafi skrifað undir þriggja ára samning við Blika.
Frétt á heimasíðu Breiðabliks í síðustu viku. Þar kemur fram að Kristján Flóki hafi skrifað undir þriggja ára samning við Blika.
Mynd: Breiðablik.is
Óvist er hvort Kristján Flóki Finnbogason muni ganga í raðir Breiðabliks. Þetta hefur Fótbolti.net eftir öruggum heimildum en málið ku vera flókið.

Í síðustu viku komst Kristján Flóki að samkomulagi um starfslok hjá FC Kaupmannahöfn en hann kom til danska félagsins frá FH árið 2013.

Breiðablik sendi frá sér fréttatilkynningu í síðustu viku um að Kristján Flóki væri búinn að skrifa undir þriggja ára samning við félagið. Það virðist þó ekki vera rétt.

Í dag eru nefnilega mestar líkur á að Kristján Flóki muni ganga til liðs við FH á nýjan leik. Kristján Flóki átti eftir að skrifa undir samninginn hjá Blikum og þegar kom að því snérist honum hugur.

FH hefur lagt mikla áherslu á að fá Kristján Flóka í sínar raðir undanfarna daga og samkvæmt heimildum Fótbolta.net er líklegra í dag að hann endi hjá uppeldisfélagi sínu í Hafnarfirði heldur en hjá Breiðabliki.

Kristján Flóki er sjálfur á leið til Rúmeníu með U21 árs landsliði Íslands fyrir vináttuleik á fimmtudag en hann vildi ekkert tjá þegar Fótbolti.net ræddi við hann í morgun. Kristján Flóki sagðist ekki vilja tjá sig fyrr en eftir þann leik.

Málið virðist eldfimt en Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, vildi ekki tjá sig um það og þá vildi Jón S. Garðarsson, formaður meistaraflokksráðs, ekki ræða við Fótbolta.net þegar eftir því var leitað.

Fótbolti.net reyndi einnig að ná í Borghildi Sigurðardóttur, formann knattspyrnudeildar Breiðabliks, en hún er stödd erlendis. Ekki hefur heldur náðst í Eystein Pétur Lárusson framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Þá náðist ekki í Total football, umboðsskrifstofu Kristjáns Flóka, til að fá upplýsingar um málið.

,,Ég hef engar fréttir af þessu, ekki í bili allavega. Við erum ekki í viðræðum við hann," sagði Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, við Fótbolta.net um málið.

Kristján Flóki á leiki að baki með U17 og U19 ára landsliði Íslands en þessi tvítugi leikmaður hefur skorað reglulega fyrir unglinga og varalið FCK undanfarin tvö ár.
Athugasemdir
banner
banner
banner