Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
   fös 27. mars 2015 14:45
Magnús Már Einarsson
Kristján Guðmunds: Eiður Smári byrjar
Icelandair
Byrjar Eiður Smári.
Byrjar Eiður Smári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már kemur líklega inn í hægri bakvörðinn.
Birkir Már kemur líklega inn í hægri bakvörðinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjörugar umræður voru í sjónvarpsþætti Fótbolta.net á ÍNN í gærkvöldi um landsleikinn sem er framundan gegn Kasakstan á morgun. Rætt var um byrjunarliðið í leiknum á morgun.

,,Lars gerir ekki miklar breytingar. Svíar eru íhaldssamir og hann mun ekki gera neinar breytingar nema Birkir Már verður í hægri bakverðinum. Jón Daði verður uppi á topp með Kolbeini," sagði Guðjón Guðmundsson í þættinum.

,,Ég er sammála Gaupa. Hann heldur Jóni Daða inni að sjálfsögðu og Kolbeinn verður frammi. Síðan setur hann Jóa Beg og Eið Smára inn eftir hentugleika," bætti Sigurbjörn Hreiðarsson við.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, er ekki sammála en hann telur að Eiður Smári byrji.

,,Vörnin verður þessi en Eiður Smári byrjar frammi með Kolbeini," sagði Kristján í þættinum.

,,Ég hélt að Jón Daði myndi byrja en síðan hefur maður hugsað þessi mál. Af hverju að taka Eið Smára inn í hópinn til að setja hann inn á? Hugsunin er að ná tökum á leiknum sem fyrst og þá er betra að hafa Eið Smára í byrjun. Þá getum við alltaf sett Jóa Berg eða Emil inn af bekknum."

Sigurbjörn bætti þá við: ,,Ég held að hann byrji með Eið Smára fyrir utan og sjái hvernig þetta spilast. Ég hef ekki trú á að Eiður eigi 90 mínútur inni. Eiður er það klókur að hann les á bekknum og sér hvað gerist og kemur síðan inn af bekknum og gerir það sem þarf."

Svíar draga ekki upp nema það sé bjart úti
Guðjón segist ekki sjá annað en að Lars Lagerback og Heimir Hallgrímsson haldi sig við sama lið áfram og Eiður byrji því á bekknum.

,,Hann (Eiður) var hættur og það yrði algjör kúvending hjá Lars Lagerback ef hann myndi láta Eið byrja þennan leik eftir það sem á undan er gengið. Svíar draga ekki upp gluggatjöldin heima nema þeir viti að það sé bjart úti þannig að hann heldur sig við þetta lið sem hefur fært honum níu stig í riðlinum til þessa."

,,Það væri skemmtilegt og óvænt ef að Eiður myndi byrja en miðað við hvernig Lars hefur gert þetta þá spilar hann á því liði sem hann treystir best," sagði Gaupi.

Smelltu hér til að sjá sjónvarpsþáttinn
Athugasemdir
banner
banner