Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 28. apríl 2015 12:00
Elvar Geir Magnússon
Spá Fótbolta.net - 2. sæti: KR
Markahrókurinn Gary Martin.
Markahrókurinn Gary Martin.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Skúli Jón Friðgeirsson er mættur í vörnina.
Skúli Jón Friðgeirsson er mættur í vörnina.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Gunnar Þór Gunnarsson.
Gunnar Þór Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daninn Sören Frederiksen.
Daninn Sören Frederiksen.
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
Atli Sigurjónsson og Gary Martin.
Atli Sigurjónsson og Gary Martin.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Einn heitasti stuðningsmaður KR.
Einn heitasti stuðningsmaður KR.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Í dag kynnum við liðin tvö sem eiga að enda í efstu sætum Pepsi-deildarinnar. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Bikarmeistarar KR munu taka silfrið en þeir fengu 85 stig.

Spáin:
1. FH
2. KR 85 stig
3. Stjarnan 83 stig
4. Valur 70 stig
5. Breiðablik 65 stig
6. Fylkir 56 stig
7. Víkingur 48 stig
8. Keflavík 34 stig
9. Fjölnir 28 stig
10. ÍBV 27 stig
11 ÍA 21 stig
12. Leiknir 14 stig

Um liðið: Það eru alltaf miklar kröfur í Vesturbænum en KR er spáð öðru sæti deildarinnar. Talsverðar breytingar hafa orðið hjá félaginu. Bjarni Guðjónsson er tekinn við þjálfuninni eftir að Rúnar Kristinsson hélt til Noregs og tók við Lilleström. Henrik Bödker er kominn í þjálfarateymið og eru þrír danskir leikmenn í herbúðum KR fyrir tímabilið.



Hvað segir Jörundur? Jörundur Áki Sveinsson er sérstakur álitsgjafi Fótbolta.net um liðin í Pepsi-deildinni 2015. Jörundur lét af störfum sem þjálfari hjá BÍ/Bolungarvík í fyrra en þar áður var hann aðstoðarþjálfari FH. Í dag þjálfar hann meistaraflokk kvenna hjá Fylki.

Styrkleikar: Sterk hefð og frábær umgjörð. Gæða leikmenn sem þekkja tilfinninguna að vinna titla... allir sem einn! Hafa fengið flotta leikmenn í stað þeirra sem fóru: Pálma Rafn, Skúla Jón, Danina Rasmus, Jacob Schopp og Sören Frederiksen sem þykja flottir leikmenn. Nú síðast fengu þeir svo frábæran liðstyrk í Óskari Erni Haukssyni, sem er kominn aftur heim eftir stutta vetrardvöl í Kanada. Vill greinilega komast í sólina og hitann á Klakanum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þjálfurunum tekst að púsla þessu saman og búa til flotta liðsheild. Það er ekki auðvelt en klárlega eru gæði til staðar.

Veikleikar: Það hafa orðið talsverðar breytingar á liðinu frá því í fyrra. Helst ber að nefna nýtt þjálfarateymi. Rúnar og Pétur hafa skilað sérlega góðu starfi undanfarin ár og það verður ekki auðvelt fyrir Bjarna og G. Ben að feta í spor þeirra. Báðir hafa mikla reynslu sem leikmenn og mikla þekkingu á leiknum en þetta er allt annar handleggur. Þetta er KR!

Skiptir máli að þeir byrji mótið vel og minnki þar með pressuna sem fylgir því að þjálfa KR. Það hafa einnig verið breytingar á leikmannahópnum. Helst ber að nefna brotthvarf Baldurs Sigurðssonar sem hefur verið algjör lykilmaður þeirra undanfarin ár. Haukur Heiðar var frábær í fyrra og hélt út í atvinnumennsku, algjörlega verðskuldað fyrir hann. Guðmundur Reynir er farinn í Ólafsvík (skildi það „move" ekki alveg), gott fyrir Víking Ó. Emil Atlason er einnig farinn. Allt eru þetta leikmenn sem myndu styrkja flest lið (já ég sagði flest, ekki öll).

Lykilmenn: Gary Martin. Ef hann er í stuði er hann illviðráðanlegur. Pálmi Rafn, fær mikla ábyrgð og henni fylgir pressa, verður gaman að sjá hann aftur eftir mörg ár í útlöndum. Danirnir þrír. Bödker hefur verið góður í að koma með gæða leikmenn frá Danmörku hingað til lands og þetta hljóta að vera flottir strákar sem styrkja liðið, annað væri vonbrigði. Stefán Logi þarf að eiga flott tímabil. Frábær markvörður sem þarf að standa vaktina frá upphafi til enda. Óskar Örn er gríðarlega skemmtilegur og frábært fyrir KR að fá hann heim aftur.

Gaman að fylgjast með: Verður gaman að fylgjast með þjálfarateyminu. Munu örugglega vilja setja sinn stíl á liðið. Það verður mikil prófraun strax í 1. umferð þegar vinir þeirra úr Hafnarfirði mæta í heimsókn. Er viss um að Bödkerinn verður í stuði og lætur vel í sér heyra. KR hefur alltaf átt frábæra stuðningsmenn sem setja skemmtilegan svip á leiki deildarinnar. En þeir eru kröfuharðir og sætta sig ekki við neitt kjaftæði. Það er aðeins eitt sem kemur til greina... titill... helst tveir!



Stuðningsmaðurinn segir - Runólfur Trausti Þórhallsson
„Það hefur verið smá óvissu blær yfir KR í vetur. Innkoma Bjarna Guðjóns í þjálfarasætið hefur vakið jákvæð og neikvæð viðbrögð eftir því sem ég veit best og margir ekki vissir með að hann sé rétti maðurinn til að taka við af Rúnari Kristins. Þolinmæði er hins vegar dyggð og ég reikna með að Bjarni fái nægan tíma til að sýna hvað hann getur. Logi Ólafs stýrði nú liðinu í næstum fjögur ár fjandinn hafi það."

„Leikmannahópurinn er á pappír eins sterkur og á verður kosið. Skúli Jón kominn heim, Óskar Örn var að snúa aftur og svo virðist sem hinn danski Daley Blind sé mættur í KR. Svo má ekki gleyma Pálma Rafni, hann á víst að hafa alla burði til að vera besti maður deildarinnar. Maður verður bara að bíða og sjá. Einnig ætla ég að spá því að KR muni ekki sakna Hauks Heiðars jafn mikið og margir halda ef Gonzalo Balbi (mágur Suarez) fær að leika lausum hala í hægri bakverðinum."

„Það er því nokkuð ljóst að krafan, eins og alltaf, er titill í Vesturbænum."

Völlurinn: KR-völlurinn stendur alltaf fyrir sínu þó hann sé ekki lengur í flokki flottustu valla landsins. Alltaf gaman að mæta á völlinn í Vesturbænum. Sæti fyrir 1.541 áhorfendur.

Komnir:
Hörður Fannar Björgvinsson frá Fram
Kristinn Jóhannesson Magnússon frá Víkingi R.
Pálmi Rafn Pálmason frá Lilleström
Skúli Jón Friðgeirsson frá Elfsborg
Sören Fredriksen frá Aab
Rasmus Christiansen frá Ull/Kisa
Þorsteinn Már Ragnarsson frá Víkingi Ó. (Var í láni)
Jacob Schoop frá OB
Óskar Örn Hauksson til baka úr láni

Farnir:
Baldur Sigurðsson til SönderjyskE
Egill Jónsson í Víking Ó. á láni
Guðmundur Reynir Gunnarsson í Víking Ólafsvík á láni
Haukur Heiðar Hauksson til AIK

Leikmenn KR sumarið 2015:
1 Stefán Logi Magnússon
2 Grétar Sigfinnur Sigurðarson
3 Rasmus Christiansen
4 Gonzalo Balbi Lorenzo
5 Skúli Jón Friðgeirsson
6 Gunnar Þór Gunnarsson
7 Gary John Martin
8 Jónas Guðni Sævarsson
9 Þorsteinn Már Ragnarsson
10 Pálmi Rafn Pálmason
11 Almarr Ormarsson
12 Hörður Fannar Björgvinsson
13 Sindri Snær Jensson
16 Kristinn J. Magnússon
18 Aron Bjarki Jósepsson
19 Sören Fredriksen
20 Jakob Schoop
22 Óskar Örn Hauksson
23 Atli Sigurjónsson
26 Björn Þorláksson
27 Guðmundur Andri Tryggvason
28 Atli Hrafn Andrason
29 Júlí Karlsson

Leikir KR 2015:
4. maí KR – FH
11. maí Breiðablik – KR
17. maí KR – Fjölnir
20. maí Fylkir – KR
25. maí KR – ÍBV
31. maí KR – Keflavík
7. júní Valur – KR
15. júní KR – ÍA
22. júní Stjarnan – KR
28. júní KR – Leiknir
12. júlí Víkingur R. – KR
19. júlí FH – KR
26. júlí KR – Breiðablik
5. ágúst Fjölnir – KR
10. ágúst KR – Fylkir
17. ágúst ÍBV – KR
23. ágúst Keflavík – KR
30. ágúst KR – Valur
13. sept ÍA – KR
20. sept KR – Stjarnan
26. sept Leiknir – KR
3. okt KR – Víkingur R.

Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Elvar Geir Magnússon, Gunnar Birgisson, Hafliði Breiðfjörð, Arnar Geir Halldórsson og Jóhann Ingi Hafþórsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner