fös 31. júlí 2015 06:00
Alexander Freyr Tamimi
Framtíð Nile Ranger enn og aftur í óvissu
Nile Ranger í leik með Blackpool.
Nile Ranger í leik með Blackpool.
Mynd: Getty Images
Ferill vandræðagemsans Nile Ranger hjá Blackpool gæti hafa runnið sitt skeið eftir að nýji knattspyrnustjórinn Neil McDonald vísaði honum af æfingasvæði liðsins, að sögn leikmannsins.

Þessi 24 ára gamli framherji hafði ekki mætt á æfingu hjá Blackpool síðan í nóvember síðastliðnum vegna launaágreinings og kom það öllum í opna skjöldu þegar félagið nýtti sér ákvæði um að framlengja samning hans um eitt ár í maí.

Rangers mætti ekki til æfinga þegar undirbúningstímabilið hófst þann 29. júní síðastliðinn en eftir að hafa rætt við McDonald var búist við því að hann myndi byrja að æfa með liðinu fyrir komandi tímabil.

Þegar Ranger mætti á æfingu á miðvikudag - mánuði síðar en upphaflega stóð til - sagði McDonald leikmanninum hins vegar að snúa aftur til Lundúna.

Ranger var brjálaður á samfélagsmiðlinum Instagram eftir atvikið og lýsti yfir óánægju sinni. Krafðist hann þess að leikmannasamtökin gripu til sinna mála.

Nile Ranger þótti einn efnilegasti leikmaður Englands er hann lék með Newcastle en ýmiss konar heimskupör hafa farið langleiðina með að rústa ferli hans.

Blackpool mun hefja leik í League 1 á næstunni eftir að hafa fallið úr Championship deildinni á síðustu leiktíð.
Athugasemdir
banner
banner
banner