sun 04. október 2015 18:32
Alexander Freyr Tamimi
Carragher hissa á að Rodgers var rekinn - Vill Klopp
Carragher telur tímasetninguna á brottrekstri Rodgers undarlega.
Carragher telur tímasetninguna á brottrekstri Rodgers undarlega.
Mynd: Getty Images
Jamie Carragher, fyrrum varnarmaður Liverpool, vill að Jurgen Klopp verði arftaki Brendan Rodgers hjá sínu gamla félagi. Hann telur þó tímasetninguna á brottrekstri Norður-Írans vera undarlega.

Rodgers var rekinn í dag eftir 1-1 jafntefli gegn Everton og er Carragher á því að Klopp sé betri maður í starfið heldur en t.d. Carlo Ancelotti, sem einnig hefur verið orðaður við stjórastöðuna á Anfield.

„Ef ég fengi einhverju ráið myndi ég reyna að fá Klopp frekar en Ancelotti. Hann hefur meira að sanna," sagði Carragher.

„Það er ekki auðvelt starf að taka við Liverpool núna. Ancelotti er auðvitað frábær stjóri en hann hefur farið í störf þar sem ætlast er til að hann vinni titla. Hjá Liverpool verður erfitt að komast í topp fjóra, við getum gleymt því að tala um titilinn."

„Ég held að það þurfi að koma einhver sem hefur þessa orku og þennan drifkraft til að koma Liverpool aftur þangað sem félagið vill vera. Ég held að Jurgen Klopp sé sá maður."

Þá tók hann sig til og gagnrýndi eigendur Liverpool fyrir að reka Rodgers eftir einungis átta leiki á tímabilinu.

„Þetta hefur ekki gengið vel hjá Rodgers á tímabilinu, hann þurfti að byrja það vel. Hann var kannski heppinn að fá að vera áfram eftir síðasta tímabil, margt starfsfólk fór og hann fékk nýtt starfsfólk. Hann eyddi 70 eða 80 milljónum punda, en sjö leikjum síðar skiptir Liverpool um stjóra," segir Carragher.

„Þess vegna er ég ekki hrifinn af þessu. Rekið hann bara yfir sumarið ef þið viljið skipta. Eigendur félagsins hafa alls ekki verið að taka nógu góðar ákvarðanir fyrir Liverpool FC undanfarin tvö til þrjú ár. Langt því frá."
Athugasemdir
banner
banner