mið 28. október 2015 13:19
Magnús Már Einarsson
úr Kaplakrika
Gunnar Nielsen í FH (Staðfest)
Gunnar mættur í FH treyjuna.
Gunnar mættur í FH treyjuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Færeyski landsliðsmarkvörðurinn Gunnar Nielsen hefur gengið til liðs við Íslandsmeistara FH.

Gunnar skrifaði undir þriggja ára samning við félagið á fréttamannafundi nú rétt í þessu.

„Við teljum að þetta sé fengur fyrir félagið. Ég held að það sé öllum ljóst að þetta er hágæða markvörður," sagði Jón Rúnar Halldórsson formaður knattspyrnudeildar FH.

Hinn 29 ára gamli Gunnar varði mark Stjörnunnar á síðasta tímabili.

„Ég er ánægður með að vera hér. Vonandi eru engar slæmar tilfinningar hjá Stjörnunni, ég naut tímans þar," sagði Gunnar.

„FH er líklega eina liðið sem ég hefði farið í fyrst ég var að fara frá Stjörnunni. Ég er mjög spenntur að vera hér."

Gunnar var á sínum tíma á mála hjá Manchester City og Blackburn Rovers en hann kom til Stjörnunnar frá Motherwell í Skotlandi.

Róbert Örn Óskarsson hefur varið mark FH undanfarin þrjú ár en hann verður samningslaus í lok vikunnar. Jón Rúnar sagði að samningar hafi ekki náðst við hann ennþá en viðræður hafi verið í gangi.
Athugasemdir
banner