banner
   mið 27. janúar 2016 14:32
Magnús Már Einarsson
Viðar Örn til Malmö (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sænska félagið Malmö hefur keypt framherjann Viðar Örn Kjartansson frá Jiangsu Suning í Kína.

Viðar Örn skrifaði undir þriggja ára samning við Malmö en mörg önnur félög höfðu sýnt honum áhuga.

„Það var mikill áhugi frá tveimur tyrkneskum liðum sem og dönskum, norskum, sænskum og svissneskum liðum. Það er öðruvísi að eiga samskipti við Kínverjana. Hann átti tvö ár eftir af sínum samning og það þurfti að finna flöt á því en það náðist," sagði Ólafur Garðarsson umboðsmaður Viðars í samtali við Fótbolta.net í dag.

Viðar spilaði í eitt ár í Kína þar sem hann skoraði þrettán mörk og bikarmeistari með Jiangsu. Viðar var áður markakóngur í Noregi með Valerenga árið 2014. Hann er spenntur fyrir að spila á Norðurlöndunum á nýjan leik.

„Mér finnst þetta vera flott. Ég held að þetta hafi verið mest spennandi af því sem var í boði," sagði Viðar við Fótbolta.net nú rétt í þessu.

Viðar er 25 ára gamall en hann hefur skorað eitt mark í átta landsleikjum á ferli sínum.

Hjá Malmö hittir hann Kára Árnason, félaga sinn úr íslenska landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner