Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fös 12. febrúar 2016 11:10
Elvar Geir Magnússon
Lyftir græna spjaldinu á Íslandi
Kike með græna spjaldið.
Kike með græna spjaldið.
Mynd: Tarjetaverde Fairplay
Í haust var Spánverjinn Enrique Caballero, kallaður Kike, ráðinn í þjálfun yngri flokka hjá Leikni í Breiðholti. Kike er upphafsmaður „græna spjaldsins" og talar fyrir því að spjaldið verði tekið upp í ríkari mæli í fótboltaheiminum samhliða því gula og rauða.

Græna spjaldið sker sig úr því það er ætlað fyrir dómara til að verðlauna háttvísi innan vallar. Spjaldið hefur verið notað í yngri flokkum og í neðri deildum á Spáni og Ítalíu.

„Græna spjaldið er í raun verkfæri til að hjálpa þjálfurum, dómurum og leikmönnum. Í fótbolta er oft hugsað um það sem er neikvætt. Þér er refsað fyrir hegðun með gulu og rauðu spjaldi. Af hverju ekki að verðlauna góða hegðun," segir Kike í viðtali við Breiðholtsblaðið.

Kike segir að fólk sé yfirhöfuð mjög hrifið af þessari hugmyndafræði en hann hefur fengið verðlaun fyrir græna spjaldið, þar á meðal frá háskólanum í Cadiz á Spáni.

„Í þeim leikjum sem spjaldið er notað er það sérstök stund þegar spjaldið fer á loft. Á leikjum úti er yfirleitt mikið af fólki og þegar dómarinn lyftir upp spjaldinu stendur fólk upp og klappar. Það sést líka á leikmanninum sem fær spjaldið að það er sérstakt fyrir hann."

Kike notar græna spjaldið einnig sem þjálfari, en með hvaða hætti?

„Ég verðlauna leikmenn með spjaldinu á æfingum og síðan í lok árs fær sá sem á flest spjöld viðurkenningu. Um daginn spiluðu strákarnir leik sín á milli sem endaði 2-2 en ég gaf liðinu sem var með fleiri græn spjöld stigin þrjú sem keppt var um. Við þjálfarar erum ekki bara að búa til fótboltamenn heldur líka karaktera," segir Kike í Breiðholtsblaðinu.

Hefði græna spjaldið verið notað í enska boltanum á sínum tíma hefði Paolo Di Canio klárlega fengið það þegar hann stoppaði leikinn eftir að markvörður andstæðingana meiddist.

Athugasemdir
banner
banner
banner