Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   sun 14. febrúar 2016 07:00
Arnar Geir Halldórsson
Badstuber ökklabrotnaði á æfingu - Ótrúleg meiðslasaga
Ótrúlega óheppinn
Ótrúlega óheppinn
Mynd: Getty Images
Óheppnin virðist elta þýska varnarmanninn Holger Badstuber sem er á mála hjá Bayern Munchen.

Þýska stórveldið greindi frá því í gær að Badstuber hefði ökklabrotnað á æfingu en hann hefur undirgengist aðgerð og er talið að hann verði frá í þrjá mánuði.

Þessi 26 ára gamli varnarmaður hefur þegar eytt rúmlega tveim árum af atvinnumannaferli sínum í meiðsli og endurhæfingu vegna þeirra en þrátt fyrir að eiga yfir 100 deildarleiki með Bayern Munchen hefur hann aðeins spilað 17 deildarleiki síðan hann meiddist fyrst á hné árið 2012.

Missti af HM vegna meiðsla

Badstuber meiddist fyrst alvarlega í leik gegn Dortmund í lok árs 2012 og í maí 2013 þegar hann var að koma til baka eftir meiðslin sleit hann krossband sem varð til þess að missti af öllu tímabilinu 2013/2014 og þar af leiðandi HM í Brasilíu 2014 en Badstuber á 31 landsleik fyrir A-landslið Þýskalands.

Hann hóf síðustu leiktíð sem byrjunarliðsmaður hjá Bayern Munchen en meiddist strax í þriðju umferð Bundesligunnar og það hélt honum frá leikvellinum þar til í byrjun árs 2015.

Eftir að hafa enn á ný tekist að vinna sér inn sæti í byrjunarliði Bæjara meiddist Badstuber illa í 6-1 sigri á Porto í Meistaradeild Evrópu síðastliðið vor og héldu þau meiðsli honum frá vellinum í rúmlega hálft ár eða þar til í nóvember síðastliðnum.

Á undanförnum mánuðum hefur Badstuber óðum verið að nálgast fyrri styrk en hann hefur byrjað síðustu fimm leiki Bayern Munchen. Ljóst er að leikirnir verða ekki fleiri á allra næstu misserum.

Meiðsli Badstuber koma á slæmum tíma fyrir Pep Guardiola því Jerome Boateng og Javi Martinez eru báðir meiddir en Medhi Benatia er þó að snúa aftur úr meiðslum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner