Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 02. maí 2016 07:15
Elvar Geir Magnússon
Ásgeir Guðmunds: Ætlum klárlega að enda ofar
Funicello og Ásgeir.
Funicello og Ásgeir.
Mynd: Vestri
Lið Vestra.
Lið Vestra.
Mynd: Vestri
Ásgeir Guðmundsson og Joe Funicello eru þjálfarar Vestra en liðinu er spáð 6. sæti 2. deildar. Liðið féll úr 1. deildinni í fyrra en hét þá BÍ/Bolungarvík. Við ræddum við Ásgeir og byrjuðum á að spyrja hvort þessi spá kæmi á óvart?

„Að einhverju leiti já en hún er svo sem ekkert galin miðað við leiki okkar í vetur í Lengjubikarnum. En við vitum svo sem að þeir leikir gefa ekki rétta mynd af okkar liði og við ætlum okkur klárlega að enda ofar í deildinni en 6. sæti. Það er alveg klárt," segir Ásgeir.

„Hópurinn samanstendur af öflugum ungum heimamönnum, nokkrir í þeim hóp hafa fengið smjörþefinn af því að spila í 1.deild en aðrir eru að taka sín fyrstu skref í meistaraflokk. Við höfum líka fengið tvær "gamlar" kempur aftur í hópinn. Þá Hafþór Atla og markmanninn Halldór Inga. Við höfum svo tvo erlenda leikmenn sem við köllum heimamenn þá Daniel Badu og Fall sem eru sestir hér að með íslenskum kærustum. En eins og undanfarin ár höfum við þurft að sækja styrkingu í liðið erlendis frá. En við reyndum að ná í íslenska leikmenn en það gekk lítið fyrir utan eðaldrenginn Erni Bjarnason sem kom til okkar á láni frá Blikunum, hann er mikil styrking fyrir liðið."

Hvernig er stemningin á svæðinu fyrir sumrinu og nýja nafninu?

„Stemmningin er mjög góð og mér finnst fólkið vera orðið mjög spennt fyrir sumrinu, við fengum smjörþefinn af því í leiknum við Kára hérna fyrir vestan um daginn. Með tilkomu Vestra verður þetta vonandi betra og markvissara starf hér í fyrir vestan í íþrótta- og aðstöðumálum. Hér hafa alltaf verið eitt félag fyrir hverja grein fyrir sig en með tilkomu Vestra sameinast nú nokkrar greinar undir sama nafnið sem mun án efa efla íþróttalífið í bænum og samheldnina í bæjarfélaginu. Við í fótboltanum kynntumst því 2006 þegar BÍ og Bolungarvík sameinuðust að það var mikil lyftistöng fyrir samfélagið og íþróttalífið. Við bindum miklar vonir að það verði það sama upp á teningnum núna."

Býstu við liðsstyrk fyrir tímabilið?

„Við fengum nokkra menn á reynslu til okkar í vetur og svo þegar við fórum í æfingarferð til Króatíu og þar náðum við að semja við þá leikmenn sem okkur vantaði. Þeir eiga að vísu eftir að fá leikheimild en þær eiga að detta inn á næstu dögum."

Þú ert þjálfari með Joe Funicello, hvernig er ykkar samstarf?

„Við Joe náum mjög vel saman, þrátt fyrir að hafa ekkert þekkst fyrir þá vegum við hvorn annan vel upp og vinnum eftir sömu aðferðarfræðinni. Við viljum spila fótbolta á sama hátt og gera umhverfið þannig hér fyrir vestan að allir fá tækifæri til að blómstra. Jafnt ungir og óreyndir leikmenn sem og þeir eldri og reyndari."

Hvernig heldur þú að deildin í heild muni spilast?

„Ég á von á því að deildin verði nokkuð jöfn ég sé fyrir mér 4-5 lið berjast um það að fara upp. Fótboltinn á Íslandi er bara að verða betri og betri hvar svo sem á það er litið. Deildirnar eru að verða sterkari vegna þess að leikmennirnir eru að taka framförum og ungu leikmennirnir eru fyrr tilbúnir að spila á því getustigi sem krefst í meistaraflokk. Það þýðir bara að það er meiri samkeppni á öllum vígstöðum. Það þarf bara að treysta á þá ungu og gefa þeim tækifæri og við Joe erum sko sannarlega tilbúnir til þess og vinnum í því dag og nótt að gera heimastrákana betri og gera umhverfið eins gott og það getur verið til þess að þeir bæti sig," segir Ásgeir Guðmundsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner