Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 30. júlí 2016 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimild: Austurfrétt 
Einherji á toppnum - „Hver sigurleikur er bara bónus og gleði“
Stelpurnar úr Einherja hafa komið mörgum á óvart
Stelpurnar úr Einherja hafa komið mörgum á óvart
Mynd: Aðsend
Úr leik hjá Einherja í sumar
Úr leik hjá Einherja í sumar
Mynd: Aðsend
Kvennalið Einherja hefur komið mörgum á óvart í sumar. Liðið er á toppi C-riðils 1. deildar kvenna, en liðið vann fjóra leiki í röð áður en stórt tap gegn Tindastóli var niðurstaðan í síðustu umferð. Einherji er þó áfram á toppnum og eru miklir möguleikar til staðar.

Sigurður Donys Sigurðsson er þjálfari liðsins, en hann leikur einnig með karlaliði félagsins, sem leikur í 3. deild. Hann segir að árangurinn sé óvæntur, en leyndarmálið á bak við hann séu stelpurnar sjálfar og liðsheildin.

Sigurður segir að lið Einherja hafi ekki búist við því að vera í toppbaráttu í sumar. „Þetta var aldrei markmiðið, það er óhætt að segja það. Markmiðið var alltaf að taka einn leik í einu, gefa allt í hvern leik og hafa gaman af. Við ætlum svo bara að sjá hverju þetta skilar okkur, hvar við endum á töflunni. Hver sigurleikur er bara bónus og gleði,“ sagði Sigurður í samtali við Austurfréttir.

Lið Einherja hefur eins og áður segir komið mjög á óvart í sumar, en mikill uppgangur hefur verið í fótboltanum á Vopnafirði síðustu ár. Bæði karla- og kvennaliðið hafa verið að spila mjög vel, en liðin eru að keppa á móti andstæðingum sem koma frá stærri stöðum.

„Stelpurnar eru virkilega duglegar, tilbúnar að leggja hart að sér og læra hratt á stuttum tíma, en þær voru flestar alveg óreyndar í 11 manna bolta. Svo er frábær mórall í liðinu, þær eru samhentar bæði innan sem utan vallar og það hefur skilað sér. Góður liðsandi fleytir manni langt í hópíþróttum.“

Einherji fékk tvær stelpur frá Ungverjalandi fyrir tímabilið og þær hafa reynst liðinu vel. Sigurður segir þó að hver og einn leikmaður skipti jafn miklu máli í hópnum og það endurspeglast í móttó-inu hjá liðinu.

„Barbara (Kopasci) hefur gefið liðinu mikinn kraft og reynslu og hefur verið gríðarlega mikilvægt að fá hana. Sömuleiðis Viki Széles sem hefur verið frábær á miðjunni, algjör vinnuhestur fyrir liðið. Þær hafa gefið mikið af sér innan vallar sem utan og frábært fyrir þessar ungu stelpur að geta lært af þeim á hverjum degi. Mottóið okkar er að það er engin ein stærri en liðið, þær eru allar jafningjar og fara langt á liðsheildinni og leikgleðinni.“
Athugasemdir
banner
banner
banner