banner
   mán 26. september 2016 09:22
Magnús Már Einarsson
Eiður frá keppni í nokkra mánuði - Spilar ekkert í Indlandi
Eiður í leik á EM í Frakklandi.
Eiður í leik á EM í Frakklandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Smári Guðjohnsen mun ekkert leika með FC Pune City í indversku ofurdeildinni vegna meiðsla á ökkla.

Eiður meiddist á ökkla á dögunum og útlit er fyrir að hann verði frá keppni í nokkra mánuði. Indverska ofurdeildin hefst í næstu viku en tímabilið þar er stutt og því lýkur í desember.

„Fyrir nokkrum dögum fann ég til í vinstri ökklanum. Ég hélt að þetta væri bara smá hnjask en þetta reyndist vera meira en það," sagði Eiður.

„Eftir að hafa skoðað þetta betur og fengið margar ráðleggingar þá er mælt með því að ég fari í endurhæfingu. Læknar liðsins mæla með því að ég hvíli utan vallar í einhvern tíma ef ég vil spila fótbolta áfram í framtíðinni og ég vil gera það."

„Stuðningsmennirnir og fólkið hér buðu mig velkominn og verðskulduðu meira frá mér en því miður lýkur tímabili mínu með FC Pune City núna. Ég hlakka til að koma aftur í framtíðinni og óska FC Pune City alls hins besta á tímabilinu."

Hinn 38 ára gamli Eiður Smári samdi við Pune City í síðasta mánuði eftir að hafa yfirgefið Molde í Noregi. Hann átti að vera stjörnuleikmaður Pune City á komandi tímabili en félagið ætlar að finna mann í hans stað.

„Eiður skilur eftir sig mikilvæga reynslu og strákarnir í liðinu lærðu mikið af honum í æfingaferð á Spáni. Við óskum honum alls hins besta í framtíðinni," sagði Antonio Habas, þjálfari Pune City.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner