Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   þri 25. október 2016 17:15
Elvar Geir Magnússon
Meisturunum í Mariehamn líkt við Ísland
Samheldnin er mikil hjá IFK Mariehamn.
Samheldnin er mikil hjá IFK Mariehamn.
Mynd: Getty Images
Frá Mariehamn á Álandseyjum.
Frá Mariehamn á Álandseyjum.
Mynd: Getty Images
IFK Mariehamn frá Álandseyjum vann það magnaða afrek að verða finnskur meistari á sunnudaginn en á eyjaklasanum, sem er milli Svíþjóðar og Finnlands, búa 29 þúsund manns.

Þessu afreki hefur af erlendum fjölmiðlum verið líkt við magnaðan árangur íslenska landsliðsins á EM í sumar og Englandsmeistaratitli Leicester.

Yfir 4.300 manns mættu á Wiklof Holding leikvanginn, heimavöll Mariehamn, á sunnudaginn þegar lokaumferð spennandi tímabils finnsku deildarinnar fór fram.

Tvö stærstu félög landsins; HJK Helsinki og SJK Seinajoki, mættust innbyrðis og þurftu að treysta að spútnikliðið á toppnum myndi misstíga sig. Þeim varð ekki að ósk sinni.

Mariehamn, sem byggir sinn leikstíl á öflugum varnarleik, vann 2-0 sigur gegn Ilves þar sem Brasilíumaðurinn Diego Assis skoraði annað markið. Hann skoraði tvennu í bikarúrslitaleiknum fyrir ári síðan þegar Mariehamn vann sinn fyrsta titil í sögu félagsins.

Það var tilfinningarík stund fyrir Pekka Lyyski þjálfara sem vann hjá félaginu í 13 ár, tók við því á botninum og leiddi það frá C-deildinni til efstu deildar 2004.

Álandseyjar eru að mörgu leyti mun nær því að vera sænskar en finnskar. Sænska er helsta tungumálið á eyjunum sem er með sitt eigið þing, fána og lögreglu. Þegar Finnland lýsti yfir sjálfstæði 1917 vildu íbúar Álandseyja verða sænskar en Finnland hafnaði því.

Lið Mariehamn ferðast í útileiki með ferju, það tekur sex klukkutíma að komast til Turku og níu tíma að fara til Helsinki. Liðið eyðir því miklum tíma saman og er eins og ein stór fjölskylda, samheldni sem má svo sannarlega líkja við íslenska landsliðið.

Það verður spennandi að fylgjast með Mariehamn í forkeppni Meistaradeildarinnar á næsta ári.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner