Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 25. október 2016 23:30
Elvar Geir Magnússon
Halli Björns: Slúðrið lýgur ekkert
Haraldur á einn A-landsleik en það var vináttuleikur gegn Finnum fyrr á þessu ári.
Haraldur á einn A-landsleik en það var vináttuleikur gegn Finnum fyrr á þessu ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haraldur er mættur í Garðabæinn.
Haraldur er mættur í Garðabæinn.
Mynd: Stjarnan
Markvörðurinn Haraldur Björnsson gekk í dag frá samningi við Stjörnuna og mun verja markið í Garðabænum næsta tímabil. Haraldur er 27 ára og hefur spilað í Skandinavíu síðustu 2012.

Haraldur var búinn að segja það að ef eitthvað spennandi tilboð kæmi frá Íslandi væri hann tilbúinn að flytja heim.

„Það eru ekki mörg félög sem eru með þennan metnað til að fara lengra og þessa umgjörð sem Stjarnan er með. Það var ekki erfitt að semja við Stjörnuna eftir að hafa rætt við þá," segir Haraldur við Fótbolta.net en fleiri félög hér á landi sýndu honum áhuga.

„Það var áhugi hjá nokkrum félögum og hefur verið í nokkurn tíma. Það er ekki mikið meira að segja um það. Ég er mjög ánægður með að vera kominn í Stjörnuna."

Haraldur var einnig orðaður við KA í slúðurpakka Fótbolta.net en hann er uppalinn hjá Val og því liggur beinast við að spyrja hvort Hlíðarendafélagið hafi ekki haft áhuga á að fá hann heim?

„Það var áhugi, slúðrið lýgur ekkert held ég," segir Haraldur.

Þarf stöðugleika í markmannsmálum
Stjörnuliðið var sveiflukennt á liðnu sumri en hafnaði að lokum í öðru sæti, fjórum stigum á eftir Íslandsmeisturum FH. Það er augljóst að Garðbæingar stefna á að taka Íslandsmeistaratitilinn á næsta ári eins og þeir gerðu 2014.

„2014 fengu menn að kynnast því hvað það er gaman þegar vel gengur. Stjörnumenn hafa gríðarlegan metnað í að gera eins vel eða jafnvel betur og það er bara gaman að fá að taka þátt í því," segir Haraldur.

Duwayne Kerr var aðalmarkvörður Stjörnunnar í sumar en hann yfirgaf félagið áður en tímabilinu lauk. Stjarnan endaði á því að nota fjóra markverði í sumar. Með komu Haraldar á að fá meiri stöðugleika í þessi mál en hann samdi til þriggja ára.

„Lið þurfa að hafa stöðugan markvörð og oft í nokkur ár, til að byggja ofan á hlutina. Þegar það er ekki nægilega góður markvörður er allt í veseni. Það þarf að vera stöðugleiki í þessum málum eins og öðrum."

Haraldur kemur frá Lilleström þar sem hann hefur verið varamarkvörður síðustu mánuði en tvær umferðir eru eftir af norsku deildinni. Eftir tímabilið fer hann í frí og byrjar svo að æfa með Stjörnunni í kringum áramótin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner