fim 27. október 2016 18:30
Magnús Már Einarsson
Vilhjálmur Rúnars tekur við Berserkjum (Staðfest)
Vilhjálmur Rúnarsson.
Vilhjálmur Rúnarsson.
Mynd: Úr einkasafni
Vilhjálmur Rúnarsson hefur verið ráðinn þjálfari Berserkja fyrir átökin í 3. deildinni næsta sumar. Berserkir stukku beint upp í 3. deildina á nýjan leik í sumar eftir að hafa fallið í 4. deildina í fyrra.

Hinn 22 ára gamli Vilhjálmur spilaði með Berserkjum í sumar en hann hefur nú tekið við sem þjálfari. Hann tekur við af Helga Andréssyni sem þjálfaði Berserki í sumar en hann verður aðstoðarþjálfari næsta sumar ásamt Jóni Steinari Ágústssyni sem var líka leikmaður á nýliðnu tímabili.

„Mér líst bara rosalega vel á þetta verkefni. Nýr og spennandi kafli fyrir mig og minn feril. Þetta er frumraun mín í þjálfun og er mér svo sannarlega kastað út í djúpu laugina," sagði Vilhjálmur við Fótbolta.net.

„3. deildin hefur aldrei verið sterkari að mínu mati og er samkeppnin ekki síðri. Líklega sú deild á Íslandi sem tekur á sig mestar breytingar ár frá ári, virkilega erfitt fyrir lið að fóta sig í henni, hvort sem það er að halda sæti sínu eða fara upp um deild."

„Við í Berserkjum erum fyllilega meðvitaðir um það og komumst að því á súran hátt. Við féllum úr 3. deild árið 2015, og vitum hvað við þurfum að bæta núna til að gera alvöru hluti í þessari deild. Það eru spennandi tímar framundan fyrir Berserki í Fossvoginum."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner