Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 19. janúar 2017 11:15
Magnús Már Einarsson
Björn Pálsson líklega hættur
Björn Pálsson.
Björn Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Miðjumaðurinn Björn Pálsson verður ekki með Víkingi Ólafsvík í Pepsi-deildinni í sumar. Hinn þrítugi Björn hefur spilað með Ólafsvíkingum síðan sumarið 2011 og verið í stóru hlutverki.

2012, 2013, 2014 og 2015 spilaði Björn hvern einasta deildarleik með Ólafsvíkingum en síðastliðið sumar spilaði hann 18 leiki í Pepsi-deildinni.

„Að spila fyrir lið í efstu deild utan höfuðborgarsvæðisins en vera í vinnu á höfuðborgarsvæðinu gerði útslagið. Það gekk einfaldlega ekki upp lengur að vera í vinnu í Reykjavík og spila svo fyrir Víking í efstu deild," sagði Björn við Fótbolta.net í dag.

„Á meðan maður býr á höfuðborgarsvæðinu allan ársins hring þá nær maður ekki að sinna boltanum nógu vel yfir sumartímann sem er náttúrulega mikilvægasti tíminn."

Björn reiknar með að skórnir séu á leið upp á hilluna en hann segir ólíklegt að hann fari í annað lið eftir að hafa yfirgefið Víking.

„Ég reikna með því að skórnir séu svo gott sem komnir á hilluna nema eitthvað mjög óvænt komi upp á," sagði Björn.

Björn er uppalinn hjá Sindra á Höfn í Hornafirði en hann hóf meistaraflokksferil sinn þar. Björn fór síðan í Stjörnuna í fjögur ár en hann hjálpaði liðinu meðal annars upp úr 1. deildinni árið 2008.
Athugasemdir
banner
banner
banner