Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 23. febrúar 2017 11:00
Magnús Már Einarsson
Rami starfaði tvítugur við ruslatínslu
Mögnuð saga.
Mögnuð saga.
Mynd: Getty Images
Adil Rami, varnarmaður Sevilla, fór aðra leið í atvinnumennsku í fótbolta heldur en margir aðrir leikmenn í stærstu deildum Evrópu.

Þegar Rami var tvítugur þá spilaði hann með Fréjus í frönsku neðri deildunum og var í bæjarvinnu á sama tíma. Starf Rami fólst meðal annars í ruslatínslu og að mála yfir veggjakrot.

Ellefu árum síðar hefur Rami tvívegis farið með Frökkum á EM, unnið frönsku deildina með Lille, Evrópudeildina með Sevilla og spilað með Valencia og AC Milan. Rami segir að atvinnumennska í fótbolta hafi verið mjög fjarlægur draumur þegar hann var tvítugur.

„Móðir mín gerði allt til að finna vinnu fyrir mig. Hún var ein með fjögur börn á meðan faðir minn var á götunni. Hann gat ekki haldið sig frá eiturlyfjum. Á hverjum degi vann ég frá klukkan 5 á morgnanna til 12:30 en síðdegis fór ég og spilaði með liðinu mínu Fréjus. Það gerði ég til gamans. Þetta var ekki vinna," sagði Rami.

Þegar Rami var tvítugur breyttist líf hans en njósnari frá Lille sá hann og bauð honum að koma á reynslu í viku með varaliði félagsins. Rami stóð sig vel og fékk samning. Hann bað hins vegar um árs frí í bæjarvinnunni til að byrja með því hann vildi geta farið aftur í gamla starfið ef fótboltadraumurinn myndi ekki ganga upp.

Rami var kominn í aðallið Lille eftir átta mánuði og hann fór aldrei aftur í bæjarvinnuna. Þess í stað er hann í dag í toppbaráttunni á Spáni og spilar í Meistaradeildinni með Sevilla.

„Núna hugsa ég að ég sé heppnari en margir krakkar sem fara í akademíur hjá fótboltaliðum. Ég myndi ekki vilja vera 15 ára í akademíu og læra bara um fótbolta. Pressan er síðan mikil á þér hvort þú náir langt eða ekki," sagði Rami.

„Þegar ég sé unga leikmenn gerast atvinnumenn þá vona ég að þeir nái að halda áfram að verða atvinnumenn næstu árin. Því að líf atvinnumanna snýst oft um peninga og stelpur. Lífið sem ég þekkti var mjög fjarlægt því. Það var mjög erfitt og ég get ekki einu sinni byrjað að útskýra það."

„Þess vegna fjárfesti ég mikið í eignum í dag. Ég passa mjög vel hvað ég geri við peninginn því að ég þekki lífið. Ég er 31 árs og ég hef beðið í 31 ár með að eignast konu og börn. Í akademíunni hitta strákar oft stelpu, þeir eru ekki ástfangnir en þeir eignast barn með henni um tvítugt. Það endar svo með skilnaði."

Athugasemdir
banner
banner
banner