Niðurtalningin - Tveir vendipunktar síðasta sumar
Niðurtalningin - Eitthvað nýtt og miklu stærra
Aldrei heim - Horfum ekki á E-riðilinn á EM
Niðurtalningin - Hverfisstrákarnir úr Árbænum
Aldrei heim - Kjartan Henry fékk góða gjöf frá Úkraínumanni
Aldrei heim - Formaðurinn í takkaskónum
Niðurtalningin - Sama uppskrift og í fyrra
Aldrei heim - Landsliðið komið til Póllands
Útvarpsþátturinn - Jói Kalli, Bjarki Már og Elvar Geir um landsliðið
Beint frá Búdapest - Hetjan sem mátti ekki tala
Beint frá Búdapest - Áfall að morgni leikdags
Viktor Unnar: Fann strax að þetta er eitthvað sem á við mig
Aron Jó: Cole Campbell tekur sínar eigin ákvarðanir
Hugarburðarbolti Þáttur 8
Beint frá Búdapest - Skiptar skoðanir á ákvörðuninni um Albert
Hákon Rafn - Umspilið og leiðin til Brentford
Enski boltinn - Töfrar í bikarnum
Útvarpsþátturinn - Landsliðsvalið fyrir bardagann í Búdapest
Hugarburðarbolti Þáttur 7
Gylfi mættur í Val - Lyftir deildinni upp um nokkrar hæðir
   fim 13. apríl 2017 12:15
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Óli Stefán: Horfði til Conte hjá Juventus þegar ég pældi í 3-5-2
Óli Stefán í viðtalinu við Fótbolta.net.
Óli Stefán í viðtalinu við Fótbolta.net.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli er að stýra liði í efstu deild í fyrsta sinn.
Óli er að stýra liði í efstu deild í fyrsta sinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er ljóst að okkar fyrsta markmið er að forðast fallsætin tvö," segir Óli Stefán Flóventsson, þjálfari nýliða Grindavíkur. Grindvíkingum er spáð 11. sæti og þar með falli í spá Fótbolta.net.

Óli segir að hópurinn sé í góðum málum varðandi líkamlegt form og taktík nú þegar styttist í mót en hann vill ná að bæta við hópinn áður en flautað verður til leiks.

„Það er ekkert leyndarmál að ég hefði viljað hafa hópinn örlítið stærri á þessum tíma, tveimur til þremur leikmönnum stærri. Við misstum sjö leikmenn í fyrra en höfum einungis fengið þrjá inn í staðinn. Við erum rosalega þunnir."

Óli Stefán vonast til að taka inn hafsent á næstu dögum og telur að styrkja þurfi vængina. Fyrsti leikur Grindavíkur er gegn Stjörnunni.

„Við höfum spilað tvisvar við Stjörnuna í vetur og erum ágætlega undirbúnir. Þetta er eitt besta lið á Íslandi í dag og við þurfum að undirbúa þann slag mjög vel. Við verðum virkilega klárir í þann leik. Ég ætlast til þess af mínum mönnum að við gefum öllum þessum liðum alvöru leik. Það verður þannig ef við höldum okkar skipulagi og plani."

Allir þrír nýju leikmennirnir meistarar
Tveir af þeim þremur leikmönnum sem Óli Stefán hefur fengið til sín koma frá Íslandsmeisturum FH en það eru Brynjar Ásgeir Guðmundsson og Sam Hewson.

„Þeir hafa báðir komið með sigurhugarfar inn í hópinn. Það var eitt af því sem við lögðum upp með í byrjun þegar við horfðum á mögulegar styrkingar. Við fengum tvo FH-inga sem þekkja nánast ekkert annað en að vinna. Maður sér það alveg á æfingum og hvernig þeir vinna hvað þeir eru að koma með til okkar frá FH. Einnig fengum við bosnískan meistara, Milos Zeravica. Þannig að allir þrír sem við höfum fengið eru meistarar og gefa mikið af sér. Það er gott því úrvalsdeildarreynslan í hópnum er ekki mikil. Ég held að ég eigi fleiri úrvalsdeildarleiki að baki sem leikmaður en allir hinir til samans," segir Óli.

Grindvíkingar misstu bakvörðinn Jósef Kristinn Jósefsson sem var lykilmaður hjá liðinu í áraraðir en hann fór í Stjörnuna. Óli viðurkennir að það verði sérstakt að mæta honum í fyrsta leik.

„Við misstum mikið þegar hann fór. Það verður sérstakt að sjá hann í bláu. En þann dag sem við leikum gegn Stjörnunni verður hann óvinur okkar og við mætum honum af fullum krafti eins og öðrum andstæðingum."

„Þessi deild er sterk og þetta er miklu stærra dæmi en við höfum verið í undanfarin ár. Við erum líka að vinna að andlega þættinum, sjá til þess að við séum ekki skjálfandi á beinunum því við erum í deild sem heitir Pepsi-deild. Þetta eru fótboltalið eins og við með ellefu einstaklinga á vellinum. Við reynum að stýra andlega þættinum."

Á von á því að gera einhver mistök
Óli Stefán hefur náð sér í mikla reynslu í þjálfun undanfarin ár en er að fara að stýra liði í efstu deild í fyrsta sinn. Býst hann við að rekast á einhverja veggi í sumar?

„Ég á allt eins von á því já. Maður er alltaf að læra í þessu. En ég er með öflugan mann og öflugt teymi af reynsluhundum kringum mig. Ég er með Jankó (Milan Stefán Jankovic aðstoðarþjálfara) og Þorstein Magnússon markmannsþjálfara sem þekkir þetta. Þeir reynast mér vel og við vinnum þetta vel saman. Ég á von á því að gera einhver mistök í sumar en vonandi lærir maður af þeim," segir Óli.

Gengið vel í markaskorun í 3-5-2
Mörg af íslensku liðunum hafa verið að æfa sig í þriggja miðvarða leikkerfi í vetur, kerfi í líkingu við það sem Englandsmeistarar Chelsea eru að spila.

„Það er gaman að því að þetta sé ekki lengur bara 4-3-3 eða 4-4-2. Þetta leikkerfi býður upp á að þú getur verið mjög sterkur til baka og lokað sterkum svæðum með fimm manna varnarlínu og sóknarlega getur þú sótt á mörgum mönnum. Ég tók þetta kerfi inn eftir tapleik gegn HK snemma síðasta sumar. Þá fór ég að nota 3-5-2 og það virkaði mjög vel og við skoruðum ofboðslega mikið af mörkum í Inkasso-deildinni. Við skorum 14 mörk í Lengjubikarnum með þetta leikkerfi svo þetta er að virka rosalega vel fyrir okkur. Svo snýst þetta líka um hvaða leikmenn þú ert með í höndunum," segir Óli Stefán.

Hann er stuðningsmaður Juventus á Ítalíu og viðurkennir að hafa horft til liðsins þegar hann breytti í 3-5-2.

„Conte var að vinna með þetta hjá Juventus og ég horfði inn í það þegar ég var að stútera 3-5-2. Sem þjálfari horfir maður öðruvísi á fótboltaleiki, maður er með taktísku gleraugun og reynir að finna eitthvað sem getur nýst manni hér heima á Íslandi."

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan en einnig er hægt að hlusta gegnum Podcast-forrit.

Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net - 11. sæti: Grindavík
Hin Hliðin - Björn Berg Bryde
Alexander Veigar - Forfallinn hjólabrettafíkill sem kennir stærðfræðu
Athugasemdir
banner
banner
banner