Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mán 24. apríl 2017 08:30
Magnús Már Einarsson
Úlfur Blandon: Ætlum að láta þetta þjappa okkur saman
Úlfur Blandon tók við liði Vals síðastliðið haust.
Úlfur Blandon tók við liði Vals síðastliðið haust.
Mynd: Valur
Valur vann Reykjavíkurmótið og Lengjubikarinn í vetur.
Valur vann Reykjavíkurmótið og Lengjubikarinn í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Okkur er búið að ganga vel á undirbúningstímabilinu og spáin tekur að hluta til mið af því,“ segir Úlfur Blandon, þjálfari Vals í Pepsi-deild kvenna, en liðinu er spáð 2. sæti í deildinni í sumar.

Valur endaði í 3. sætinu í fyrra en hvað er markmiðið á Hlíðarenda í sumar? „Fyrst og fremst ætlum við að vera sjálfum okkur og félaginu til sóma í sumar en eins og gengur og gerist þá erum með þó nokkur markmið innan liðsins sem við höldum fyrir okkur. Valur mun þó alltaf fara í alla leiki til þess að vinna og við ætlum okkur að vera í baráttunni um þá titla sem í boði eru,“ sagði Úlfur en hann reiknar með hörkukeppni í sumar.

„Mitt mat er að deildin verði jöfn og skemmtileg í sumar og ég reikna með að hún verði jafnari en oft áður. Öll liðin sem hafa verið í efri hlutanum undanfarin ár hafa styrkt sig verulega fyrir komandi tímabil og líka þau sem koma þar rétt á eftir, það eru mörg lið sem ætla sér titilinn í ár. Þetta verður spennandi.“

Dóra María Lárusdóttir, Elísa Viðarsdóttir og Mist Edvardsdóttir slitu allar krossband í vetur og verða væntanlega ekkert með í sumar. Mist gæti þó komið inn undir lok móts.

„Það er auðvitað gríðarleg vonbrigði að missa leikmenn í meiðsli sama hver það er sem á í hlut. Þær eru hinsvegar allar í kringum liðið ennþá, mæta á æfingar og koma til með að vera mikill stuðningur við aðra leikmenn liðsins utan vallar enda frábærir karakterar allar saman. Við ætlum að láta þetta þjappa okkur saman og styrkja okkur í þeirri baráttu sem framundan er.“

Til að styrkja liðið leitaði Valur til Mexíkó en landsliðskonurnar Anisa Raquel Guajardo og Ariana Calderon komu til liðsins fyrir tímabilið.

„Þær báða hafa staðið sig feykilega vel síðan þær komu til okkar og styrkja liðið. Það var svo sem ekkert ákveðið að taka leikmenn frá Mexikó við tókum bara þá leikmenn sem okkur leyst best á, að þessu sinni voru þeir frá Mexíkó.“

Úlfur útilokar ekki að fá frekari liðsstyrk á næstunni. „Við erum að skoða þessi leikmanna mál en hinsvegar fáum við leikmenn heim úr námi núna rétt fyrir mót. Þær koma til með að styrkja okkur,“ sagði Úlfur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner