Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 25. apríl 2017 09:30
Elvar Geir Magnússon
Tóti Dan: Erum litla liðið og þurfum að standa í vörn
Þórhallur Dan, þjálfari Gróttu.
Þórhallur Dan, þjálfari Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Mynd: Grótta
„Við erum litla liðið í þessari deild og þurfum að fara inn í hana af mikilli virðingu. Hún er gríðarlega erfið," segir Þórhallur Dan Jóhannsson, þjálfari Gróttu sem spáð er neðsta sæti í 1. deildinni í sumar.

Sjá einnig:
Spá þjálfara og fyrirliða í Inkasso-deildinni: 12. sæti

„Það var alveg vitað að okkur yrði spáð þessu sæti. Við erum síðasta liðið sem kemur inn í þessa deild."

Grótta náði öðru sæti 2. deildar í fyrra og komst þar með upp. Þórhallur var spurður að því hvort hann hefði viljað styrkja liðið betur fyrir Inkasso-deildina?

„Nei, ég er tiltölulega sáttur við þann mannskap sem við höfum. Stefnan hjá Gróttu er að reyna að byggja upp á heimamönnum og fá inn menn til að bæta hópinn. Við höfum reynt að gera það. Við erum lítið félag með lítil fjárráð og höfum þurft að vera nokkuð klókir til að finna leikmenn sem eru tilbúnir til að koma inn í þetta „concept" okkar. Við teljum okkur hafa fundið þá leikmenn. Vonandi getum við náð að færa þetta upp á næsta level hjá Gróttu," segir Þórhallur.

Aðalsmerki Gróttu í fyrra var varnarleikurinn og liðið fékk aðeins sextán mörk á sig í 2. deildinni.

„Það verður okkar hlutskipti að standa í vörn og stefna á að fá ekki mörg mörk á okkur. Svo reynum við að læða inn einu og einu. Auðvitað erum við búnir að vinna mikið í varnarleik. Það vita það allir að við munum vera í vörn og munum með þeim hætti reyna að fá inn stig."

Þórhallur hefur síðustu ár verið aðstoðarþjálfari Hauka en tók við Gróttu af Úlfi Blandon í haust.

„Það er enginn að fara í þetta bara til að vera með. En eins og ég segi þarf að bera virðingu fyrir þessari deild því hún inniheldur frábær lið. Keflavík er með geggjaðan þjálfara og flottan mannskap og Fylkir var búið að vera sextán ár samfleytt í úrvalsdeild fyrir fallið í fyrra. Fylkir hélt að megninu öllum mannskapnum og hafa flotta reynslu og halda áfram að bæta við. Haukarnir hafa verið þarna lengi og ættu að geta gert atlögu að úrvalsdeildinni. Þór er með Kristján og Lárus Orra sem er frábær þjálfari. Svona getur maður haldið áfram að telja."

„Maður hefur reynt að koma strákunum í skilning um að til að lifa þessa deild af þurfum við að vera 100% í hverjum einasta leik. Við erum ekki að mæta í deildina til að vera fallbyssufóður, við viljum hrekkja stóru strákana," segir Þórhallur Dan að lokum.
Athugasemdir
banner
banner