Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 30. apríl 2017 08:00
Elvar Geir Magnússon
Spá þjálfara og fyrirliða í 2. deild: 6. sæti
Bergur Jónmundsson.
Bergur Jónmundsson.
Mynd: 640.is - Hafþór Hreiðarsson
Bjarki Baldvinsson.
Bjarki Baldvinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Guðmundur Óli Steingrímsson í baráttunni.
Guðmundur Óli Steingrímsson í baráttunni.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari.
Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1.
2.
3.
4.
5.
6. Völsungur 129
7. Fjarðabyggð 126
8. Víðir 90
9. Sindri 79
10. Höttur 76
11. KV 72
12. Tindastóll 58

6. Völsungur
Lokastaða í fyrra: 9. sæti í 2. deild
Völsungur endaði í 9. sæti í 2. deild í fyrra eftir að hafa unnið 3. deildina árið áður. Húsvíkingar gerðu 12 jafntefli í fyrra og voru lengi vel í fallbaráttunni þar sem erfiðlega gekk að landa þremur stigum.

Þjálfarinn: Jóhann Kristinn Gunnarsson tók við Völsungi af Páli Viðari Gíslasyni síðastliðið haust. Jóhann þjálfaði Völsung í tvö ár frá 2009 til 2011 og tók svo við Þór/KA í Pepsi-deild kvenna árið 2012 og gerði liðið að Íslandsmeisturum sama ár. Jóhann hætti hjá Þór/KA síðastliðið haust eftir fimm ár við stjórnvölinn.

Styrkleikar: Húsvíkingar hafa litið mjög vel út á undirbúningstímabilinu og frammistaða þeirra í Lengjubikarnum gefur góð fyrirheit fyrir sumarið. Guðmundur Óli Steingrímsson og Hafþór Mar Aðalsteinsson eru komnir heim á Húsavík eftir að hafa spilað í Inkasso-deildinni og þeir styrkja liðið mikið. Völsungur hefur alltaf búið til öfluga leikmenn í yngri flokkunum og nokkrir ungir og efnilegir strákar sem hafa fengið smjörþefinn undanfarin ár eru orðnir ennþá öflugri heldur en í fyrra.

Veikleikar: Gamla kempan Jóhann Þórhallsson skoraði nær helming marka Völsungs í fyrra og erfitt verður að fylla skarðið sem hann skilur eftir sig í sóknarleik liðsins eftur að hann gekk til liðs við Magna Grenivík í vetur. Í fyrra gekk Völsungi illa að fá meira en eitt stig út úr jöfnum leikjum eins og tólf jafntefli segja til um. Liðið verður að ná að kreista fram fleiri sigra í sumar. Völsungur vann ekki einn einasta útileik í fyrra og ferðalögin verða að gefa meira í sumar.

Lykilmenn: Bergur Jónmundsson, Bjarki Baldvinsson, Guðmundur Óli Steingrímsson.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Völsungs:
„Ég var sjálfur að reyna að spá og raða upp liðunum en fannst það verulega erfitt. Þetta endaði nánast í 1x2 random uppröðun. Þekki lítið til liðanna í deildinni en af því sem ég hef séð og heyrt þá verður þetta erfið deild og allir leikir erfiðir. Við erum spenntir fyrir tímabilinu hér í Völsungi. Menn hafa æft vel og undirbúið sig fyrir hörkumót. Það er vonandi að við fáum spennu í botni og toppi allt til loka. Það er miklu skemmtilegra þannig. Við ákváðum að haga undirbúningnum þannig að menn færu í mótið það vel undirbúnir og leggðu það mikið á sig að stefnan yrði tekin á toppbaráttuna. Svo erum við ekkert feimnir við að dusta af gamalli klisju um að fara í alla leiki til að vinna!"

Komnir
Geirlaugur Árni Kristjánsson frá KR (á láni)
Guðmundur Óli Steingrímsson frá Þór
Halldór Mar Einarsson frá Þór
Snæþór Haukur Sveinbjörnsson frá Geisla
Sverrir Bartolozzi frá Stjörnunni (á láni)

Farnir
Aron Kristófer Lárusson í Þór
Bergvin Jóhannsson í Magna
Bjarki Þór Jónasson
Halldór Orri Hjaltason.
Jóhann Þórhallsson í Magna
Olgeir Sigurgeirsson í Augnablik
Stefán Jón Sigurgeirsson hættur
Steinþór Már Auðunsson í Þór

Fyrstu leikir Völsungs
6.maí Völsungur – Afturelding
12. maí Magni - Völsungur
20. maí Höttur - Völsungur
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner