Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 22. maí 2017 14:50
Magnús Már Einarsson
Guðmundur Steinn: Get ekki borðað
Guðmundur Steinn í baráttunni í gær.
Guðmundur Steinn í baráttunni í gær.
Mynd: Raggi Óla
Guðmundur í leiknum í gær.
Guðmundur í leiknum í gær.
Mynd: Raggi Óla
„Mér fannst þetta vera hart. Hann getur samt örugglega réttlætt þetta ef hann reynir nógu mikið," sagði Guðmundur Steinn Hafsteinsson, fyrirliði Víkings Ólafsvíkur, við Fótbolta.net í dag um rauða spjaldið sem hann fékk hjá Gunnari Jarli Jónssyni í 3-0 tapinu gegn ÍBV í gær.

Guðmundur Steinn fékk tvö gul spjöld en það síðara kom á 54. minútu í stöðunni 1-0 fyrir ÍBV. Fyrra spjaldið fékk Guðmundur fyrir tæklingu í fyrri hálfleik.

„Ég hef oft séð dæmt á svona. Ég tæklaði boltann algjörlega en ég var með sólann uppi. Ég get ekki kvartað yfir því að fá gult þar," sagði Guðmundur.

„Það sem ég var ósáttur við var að ég fékk olnbogaskot í andlitið fyrr í leiknum. Þegar ég reyndi að ræða það við Gunnar þegar atvikið átti sér stað þá sagði hann: 'Þetta er bara skallabolti. Hendurnar eru þarna uppi og play on.' Hann talaði eins og hann hefði séð atvikið og það væri í lagi að setja olnboga í andlitið ef þú vinnur boltann. Það fór aðeins í mig, ég skal viðurkenna það. Fyrst það var búið að leggja þessa línu þá fannst mér hart að fá gult fyrir að tækla boltann þó að sólinn væri uppi."

„Þetta var ekki hættulegt í eina sekúndu"
Á 54. mínútu fékk Guðmundur Steinn síðan annað gult spjald þegar hann fór í Halldór Pál Geirsson markvörð Eyjamanna þegar hann greip fyrirgjöf. Guðmundur var afar ósáttur við það spjald.

„Ég horfi á boltann allan tímann. Hann hleypur jafnmikð á blindu hliðina á mér og ég á hann. Ég er með vinstri löppina uppi en ekki hægri. Ég sparka ekki í hann heldur rekumst við saman. Mér finnst algjör óþarfi að reka mig út af."

„Þetta var ekki hættulegt í eina sekúndu. Það er allt í góðu að dæma aukaspyrnu því hann náði boltanum en mér fannst þetta full hörð viðbrögð. Ef þú ert sóknarmaður á gulu spjaldi getur þú allt eins látið skipta þér út af ef þú mátt ekki teygja þig í bolta þegar þú ert að horfa á boltann. Þetta var ekki hættulegt brot hjá mér."


Getur ekki borðað í dag
Guðmundur Steinn meiddist eftir olnbogaskotið í fyrri hálfleiknum í gær og eftir leik þurfti hann að kíkja til tannlæknis.

„Einn jaxlinn hefur færst til í tannstæðinu. Þetta á ekki að vera alvarlegt en ég er að drepast í kjaftinum og get ekki borðað eða neitt," sagði Guðmundur. „Tannlæknirinn tók myndir af þessu og sá hvað var að. Það er bólga undir tönninni en þetta ætti að verða allt í góðu."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner