Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mið 24. maí 2017 17:00
Magnús Már Einarsson
Hyypia: Ekki gott ef allir leikmenn Liverpool eru 175 cm
Vill sjá Liverpool kaupa hávaxinn framherja
Sami Hyypia fagnar marki með Liverpool.
Sami Hyypia fagnar marki með Liverpool.
Mynd: Getty Images
Sami Hyypia, fyrrum varnarmaður Liverpool, telur að liðið þurfi að bæta hávöxnum framherja við leikmannahópinn í sumar til að taka næsta skref.

„Liverpool þarf að gera vel í félagaskiptaglugganum í sumar til að styrkja hópinn og gera hann breiðari til að Klopp geti gert fleiri breytingar á milli leikja," sagði Hyypia við Fótbolta.net.

„Ég tel að Liverpool þurfi stóran framherja. Ef þú horfir á leikina sem Liverpool tapaði á tímabilinu þá voru þeir gegn minni liðum. Þau vörðust aftarlega og Liverpool fékk tækifæri til að gefa mikið af fyrirgjöfum en enginn gat sett boltann í netið. Liverpool þarf stóran framherja sem getur skallað boltann inn."

„Vörnin hefur fengið mikla gagnrýni á þessu tímabili. Við höfum ekki varist vel í föstum leikatriðum og ég tel að Klopp þurfi að hugsa út í hæðina á liðinu. Það er ekki gott fyrir föstu leikatriðin ef allir leikmenn eru 175 cm á hæð. Þú þarft að hafa stóra leikmenn á vellinum líka til að verjast föstu leikatriðunum. Það verður áhugavert að sjá hvaða leikmenn Liverpool fær."

Hyypia segist vera með nokkra framherja í huga fyrir Liverpool en hann vill ekki segja hverjir þeir eru. „Það eru nokkur nöfn sem ég hef í huga en ég vil frekar segja Klopp frá þeim heldur en að uppljóstra þeim hér."

Jurgen Klopp tók við Liverpool haustið 2015 og Hyypia er ánægður með starf hans á Anfield.

„Hann er góður stjóri. Ég kynntist honum í Þýskalandi. Hann er ástríðufullur og lifir fyrir fótboltann. Hann er góður stjóri. Hann er með sinn leikstíl sem tekur á fyrir leikmenn. Það er gaman að horfa á liðið spila undir hans stjórn og ég tel að hann sé rétti maðurinn fyrir Liverpool í augnablikinu," sagði Hyypia.

Hér að neðan má sjá viðtalið við Hyypia í heild sinni.
Hyypia í löngu viðtali: Finnland vinnur Ísland í september
Athugasemdir
banner
banner
banner