Við birtum síðastliðinn mánudag lista yfir þá leikmenn sem fá flest gul spjöld í spænsku, ensku, ítölsku og þýsku deildinni. Nokkrir lesendur veittu því athygli hversu mörg spjöld Pablo Garcia miðjumaður spænska liðsins Osasuna hefur fengið á leiktíðinni en hann hefur fengið 16 gul spjöld (þar af einu sinni rautt fyrir tvö gul spjöld) í 22 leikjum.
Nokkrir lesendur veittu því athygli hversu mörg spjöld Pablo Garcia miðjumaður spænska liðsins Osasuna hefur fengið á leiktíðinni en hann hefur fengið 16 gul spjöld (þar af einu sinni rautt fyrir tvö gul spjöld) í 22 leikjum.
Við á Fótbolti.net ákváðum því að reyna að forvitnast meira um þennan baráttuglaða leikmann frá Úrúgvæ.
Fótbolti.net náði sambandi við Javier Cia Irazun harðan stuðningsmann Osasuna sem fer á alla heimaleiki liðsins og lék einnig með því í yngri flokkunum. Javier tjáði okkur að Garcia sé uppáhald stuðningsmanna liðsins. Alls hefur hann brotið 70 sinnum af sér á leiktíðinni og fengið eins og fyrr segir 16 gul spjöld.
Garcia er þó ekki aðeins harður í horn að taka heldur er hann talinn einn besti miðjumaðurinn í La Liga og sýndu Barcelona honum meðal annars áhuga síðastliðið sumar en Osasuna vildi ekki selja hann þrátt fyrir bága fjárhagsstöðu því leikmaðurinn er einn sá besti hjá liðinu sem er frá Pamblona. Þá er Garcia einnig ágætis skytta en hann hefur skorað tvö mörk úr aukaspyrnum á leiktíðinni.
Javier tjáði okkur að Garcia væri dáður hjá Osasuna fyrir baráttuanda sinn en leikmaðurinn sagðist eitt sinn frekar vilja "tækla boltann heldur en rekja hann." Í fyrra fékk Garcia 14 gul spjöld og eitt rautt spjald en í ár hefur hann fengið fleiri gul spjöld enda farið í ófáar tæklingarnar.
Garcia hefur gagnrýnt Fernando Teixeira Vitienes dómara mikið en hann á að dæma leik Osasuna og Levante um helgina. Garcia sagði fyrir helgi að Teixeira sé lélegasti dómarann í sögu fótboltans. Garcia er ekki besti vinur Teixeira sem gaf honum tvö gul spjöld í leik gegn Atletico Madrid fyrr á leiktíðinni og Garcia sagði einnig að þessi dómari leggji hann í einelti þar sem hann sé frá Suður-Ameríku.
Spennandi verður að fylgjast með Pablo Garcia í framtíðinni og hvort eitthvert stórlið kaupi hann en ljóst er að leikmaðurinn verður seint sakaður um að berjast ekki fyrir lið sitt.
Athugasemdir