mán 19. júní 2017 11:40
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Heimir Guðjóns: Förum að dragast aftur úr ef við fáum ekki þrjú stig
Heimir Guðjónsson, þálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þálfari FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH þarf að vinna í kvöld.
FH þarf að vinna í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er nóg að gera hjá Íslandsmeisturum FH um þessar mundir. Þeir eiga mikilvægan leik gegn Víkingi Reykjavík í Pepsi-deildinni í kvöld og þá var liðið í pottinum þegar dregið var í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í morgun.

Fótbolti.net heyrði í Heimi Guðjónssyni, þjálfara FH, strax eftir dráttinn. FH mun mæta sigurvegaranum úr viðureign Víkings frá Færeyjum og Trepça '89 frá Kosóvó.

„Við þurfum að bíða til 5. júlí til að fá að vita hvort við mætum Trepça eða Víkingi frá Færeyjum," segir Heimir.

„Miðað við liðin sem voru í boði í drættinum held ég að þetta sé ásættanlegt. Svo þarf að spila þessa leiki og ég get tekið dæmi frá því í fyrra. Við töldum okkur hafa dottið í lukkupottinn þegar við fengum Dundalk en svo kom í ljós að það var virkilega gott lið og verðugur andstæðingur. Við töldum okkur vera með betra fótbolið en duttum út. Það þarf að spila tvo mjög heilsteypta leiki í þessari keppni til að eiga möguleika á að komast áfram."

Vonast Heimir eftir því að færeyska liðið vinni einvígið gegn liðinu frá Kosóvó upp á ferðalagið að gera?

„Ég get ekki svarað því núna. Ég á eftir að kynna mér þetta. Ég er bara að einbeita mér að leiknum í kvöld. Ég get svarað þessu þegar ég hef kynnt mér þetta betur."

Valsararnir líta virkilega vel út
Heimir er ekki farinn að hugsa mikið út í komandi Evrópuslagi.

„Fókusinn hjá okkur er náttúrulega á leikinn í kvöld. Við eigum erfiðan leik gegn Víkingum sem hafa verið funheitir upp á síðkastið. Við þurfum að fókusera á hann um leið og þessu símtali er lokið," sagði Heimir léttur.

Leikur FH og Víkings R. verður 19:15 í kvöld á Kaplakrikavelli en FH-ingar þurfa á sigri að halda til að missa ekki af lestinni í toppbaráttunni. Með sigri eru þeir sex stigum á eftir toppliði Vals.

„Það er engin spurning að við verðum að vinna. Valur vann í gær og Grindavík líka. Ef við fáum ekki þrjú stig förum við að dragast aftur úr. Valsararnir líta virkilega vel út og eru með 19 stig eftir átta umferðir, það er ákveðið „statement". Það er ljóst að við þurfum að hafa okkur alla við."

mánudagur 19. júní
19:15 ÍA-Fjölnir (Norðurálsvöllurinn)
19:15 FH-Víkingur R. (Kaplakrikavöllur)
19:15 Víkingur Ó.-Stjarnan (Ólafsvíkurvöllur)
20:00 KR-Breiðablik (Alvogenvöllurinn)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner