Niðurtalningin - Tveir vendipunktar síðasta sumar
Niðurtalningin - Eitthvað nýtt og miklu stærra
Aldrei heim - Horfum ekki á E-riðilinn á EM
Niðurtalningin - Hverfisstrákarnir úr Árbænum
Aldrei heim - Kjartan Henry fékk góða gjöf frá Úkraínumanni
Aldrei heim - Formaðurinn í takkaskónum
Niðurtalningin - Sama uppskrift og í fyrra
Aldrei heim - Landsliðið komið til Póllands
Útvarpsþátturinn - Jói Kalli, Bjarki Már og Elvar Geir um landsliðið
Beint frá Búdapest - Hetjan sem mátti ekki tala
Beint frá Búdapest - Áfall að morgni leikdags
Viktor Unnar: Fann strax að þetta er eitthvað sem á við mig
Aron Jó: Cole Campbell tekur sínar eigin ákvarðanir
Hugarburðarbolti Þáttur 8
Beint frá Búdapest - Skiptar skoðanir á ákvörðuninni um Albert
Hákon Rafn - Umspilið og leiðin til Brentford
Enski boltinn - Töfrar í bikarnum
Útvarpsþátturinn - Landsliðsvalið fyrir bardagann í Búdapest
Hugarburðarbolti Þáttur 7
Gylfi mættur í Val - Lyftir deildinni upp um nokkrar hæðir
   mán 26. júní 2017 13:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Hreiðar Haralds: Andleg nálgun ætti að vera fastur liður í ferlinu
Hreiðar Haraldsson.
Hreiðar Haraldsson.
Mynd: Aðsend
Grindvíkingar fagna marki.
Grindvíkingar fagna marki.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Íþróttasálfræðiráðgjafinn Hreiðar Haraldsson var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu FM 97,7 á laugardaginn. Hreiðar ræddi þar við Elvar Geir Magnússon um andlega þáttinn í fótboltanum og hvort félög á Íslandi hugsi nægilega mikið um hann varðandi leikmenn sína.

„Það er erfitt að setja fingurinn á stöðuna á þessum málum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst framförin á þessu vera hæg. Umfjöllunin er klárlega til staðar og röddin er að hækka. Hvað félögin varðar finnst mér að þau gætu gert betur og sett meiri kraft í þetta. Íþróttafélögin eru að sýna þessu meiri athygli og vinna meira í málunum þó framförin mætti vera meiri," segir Hreiðar.

Hann segir að félögin beri oft fyrir sig skort á fjármagni.

„Ég held að málið sé frekar forgangsröðun og í hvað eigi að nota peningana. Ég tel að ef peningarnir færu í svona andlega þjálfun væru félögin að fá miklu öflugri leikmenn upp úr yngri flokkunum. Oft er þetta meiri skammtímalausn, kaupa leikmenn sem eru öflugir, en lengri tíma hugsunin væri að hlúa að andlegri þjálfun og gera þá leikmenn sem eru til staðar í yngri flokkum öflugri og geti borið uppi liðin í framtíðinni."

Spútniklið Pepsi-deildarinnar í ár, Grindavík, hefur mikið verið að vinna með andlega þáttinn eins og fram hefur komið í viðtölum við leikmenn og þjálfara. Þeir hafa meðal annars verið að nýta umræðu fjölmiðla til að virkja menn.

„Ég hef haft ofboðslega gaman að því að fylgjast með Grindvíkingum í sumar og fylgjast með þeirra nálgun á þennan þátt. Þegar þeir fara inn í tímabilið geta þeir ekki gert sér grein fyrir því hvað er í vændum. Óli Stefán veit ekki hvað hann er að fara að díla við eftir fimm leiki; er hann að fara að díla við að liðið sé búið að tapa öllum leikjunum og fjölmiðlar hafa rétt fyrir sér. Hvað þarf hann þá að gera með liðið sitt. Eða er hann að fara óvænt í toppbaráttu og díla við það. Óli er að mínu viti að spila ótrúlega rétt úr spilunum. Fókusinn er stuttur, það er bara að leggja lífið að veði í næsta leik og svo kemur uppskeran úr því. Svo kemur bara næsti leikur."

„Þú ræður því svolítið sjálfur hvernig þú notar fjölmiðlaumfjöllun, hvort sem hún er jákvæð í þinn garð eða neikvæð. Þú getur alltaf fundið leiðir til að láta umfjöllunina vinna þér í hag. Að sama skapi getur hún unnið gegn þér, sama hvort hún sé jákvæð eða neikvæð. Það er hellings kúnst að nýta þessa umfjöllun, láta hana gefa þér sjálfstraust en passa þig samt að láta hana ekki fara með þig upp til skýjana."

Hreiðar segir að það sé ekki bara á Íslandi sem það sé á byrjendastigi hjá félögunum að vinna með íþróttasálfræði. Til að mynda þegar leikmenn lenda í erfiðum meiðslum. Þá sé mikilvægt að hlúa að andlega þættinum eins og þeim líkamlega.

„Andleg nálgun, viðtöl við íþróttasálfræðinga eða íþróttasálfræðiráðgjafa, á að vera fastur liður í því ferli sem fer í gang þegar leikmaður meiðist. Augljóslega hefur þetta mikil áhrif. Það hagnast allir á því að einstaklingurinn fái aðstoð á þessu sviði. Félagið og þjálfarinn vilja að leikmaðurinn haldi sönsum, iðki sína sjúkraþjálfun og endurhæfingu af krafti. Það er hægara sagt en gert þegar þú lendir í svona vonbrigðum, þú getur ekki gengið að því vísu. Þessi þjónusta á að vera aðgengileg þegar íþróttamaður lendir í meiðslum. Fólk á ekki að þurfa að grafa eftir þessu," segir Hreiðar.

Hann segir að þegar hann hafi farið að læra íþróttasálfræði sé það í raun súrrealískt hversu lítið þessum þætti er sinnt. Hann lærði úti í Svíþjóð.

„Þegar ég var að læra úti þá hugsaði ég að þetta þyrfti að færa heim. Ég fann aldrei fyrir þessari umræðu heima og hugsaði til þess hve ég hefði haft sjálfur gott af þessu á mínum unglingsárum í íþróttum. Ég hlakkaði til að koma heim og reyna að breiða boðskapinn og koma í veg fyrir að ungir íþróttamenn myndu fara á mis við þennan þátt."

En þetta snýst ekki bara um leikmennina.

„Við megum ekki gleyma þeim hæfileikum sem þjálfarar þurfa að hafa. Það eru ekki síður þeir sem þurfa að vera andlega öflugir og kunna að tjá sig við alls konar persónuleika. Engin spurning að þetta er stór hluti af íþróttum. Sama hvort við séum að ræða leikmenn eða þjálfara."

Hreiðar er sjálfur með verkefni í gangi sem kallast „Íþróttasálfræði á heimavelli" sem íslensk íþróttafélög geta nýtt sér.

„Þetta er mín leið til að færa það sem er að gerast úti í heimi í íslenskan búning. Ég hef kynnst því að íþróttafélögin hér eru ekki tilbúin að fara eins langt og stóru íþróttafélögin úti í heimi, kannski skiljanlega. Stóru félögin úti eru með íþróttasálfræðiráðgjafa á sínum snærum, eru með opna skrifstofu og leikmenn geta leitað til. Við erum ekki alveg komin þangað," segir Hreiðar.

„Þessi þjónusta er tilraun til að færa þetta til íslenskra félaga. Þetta er ekki dýr þjónusta að mínu mati en þarna geta íþróttafélögin keypt í rauninni mína þjónustu inn í félögin í hálfan eða heilan dag og boðið upp á sömu þjónustu og stóru félögin úti eru að bjóða sínum iðkendum upp á; aðgang að íþróttasálfræðiráðgjafa í viðtöl. Vinnan getur verið margs konar, hvort sem leikmenn vilja létta einhverju af sér, fá leiðbeiningar um andlega þjálfun, hvernig eigi að styrkja sjálfstraustið eða einbeitinguna. Foreldrar eða þjálfarar gætu leitað til manns líka. Þetta er eitthvað sem félög ættu að kynna sér."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner