Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mið 28. júní 2017 13:00
Magnús Már Einarsson
Vissi ekki hvað Pepsi-deildin var í fyrra - Hefur horft á alla leiki í sumar
Lucas Arnold.
Lucas Arnold.
Mynd: Úr einkasafni
Lucas spáir Valsmönnum Íslandsmeistaratitli.
Lucas spáir Valsmönnum Íslandsmeistaratitli.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Grindvíkingar hafa heillað Lucas upp úr skónum.
Grindvíkingar hafa heillað Lucas upp úr skónum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Twitter notendur sem skoða #fotboltinet hafa tekið eftir reglulegum færslum frá hinum enska Lucas Arnold en þar tjáir hann sig af mikilli ástríðu um Pepsi-deildina. Lucas er gífurlega mikill fótboltaáhugamaður en hann vissi ekki af því að Pepsi-deildin væri til í lok síðasta árs. Í dag er hann ástfanginn af íslenska boltanum.

„Í desember fékk ég tækifæri til að vera ráðgjafi hjá Football Radar en það er fyrirtæki í London. Football Radar reynir að vera klárasta fólkið í fótboltanum með því að bjóða upp á þjónustu úr yfir 40 deildum í heiminum. Ég er svo heppinn að vera náunginn sem sér um Ísland," sagði Lucas við Fótbolta.net.

„Við veitum einnig fótboltafélögum ráðgjöf því þau geta notað greiningar okkar á leikjum. Þegar ég fékk starfið fyrst þá vissi ég ekki hversu ástfanginn ég ætti eftir að verða að íslenskum fótbolta."

„Ég byrjaði að fylgjast með í desember og fyrsta reynsla mín var að fylgjast með Reykjavíkurmótinu og Fótbolta.net mótinu í janúar. Það var líka fyrsta reynsla mín af innanhús fótbolta. Ég varð strax háður."

„Ég horfði á tímabilin hjá KA og Grindavík í 1. deildinni í fyrra til að fá hugmyndir um þessi lið fyrir Pepsi-deildina í ár og þetta hefur verið ótrúlegt ferðalag. Eftir 10 vikur af Pepsi-deildinni þá er enska úrvalsdeildin gleymd fyrir mér og ég er líka búinn að gleyma hvernig það er að eiga frítíma, af því að ég eyði öllum mínum tíma í þessa deild. Ég hef ekki ennþá misst af einni mínútu á tímabilinu!"


Landslagið í kringum vellina heillar
Lucas býr í London og horfir á leiki í gegnum tölvu auk þess sem hann segist lesa alla umfjöllun um íslenska boltann á Fótbolta.net. Í sumar ætlar hann svo að heimsækja Ísland í fyrsta skipti.

„Ég hlakka til að fara fljótlega í ferð til Íslands fyrir Football Radar. Það verður ótrúlegt að heimsækja alla þessa fallegu leikvelli og kynnast menningunni. Það sem hefur vakið athygli mína, fyrir utan fótboltann, er ótrúlegt landslag í kringum leikvellina, eitthvað sem er allt öðruvísi á Englandi. Það er svo margt gott við Pepsi-deildina," sagði Lucas en hann hefur einnig fylgst vel með íslenska landsliðinu í vinnu sinni.

„Sigurinn gegn Króatíu færði mér meiri gleði en nokkur frammistaða Englands svo lengi sem ég man eftir mér. Það er eins og íslenskur fótbolti sé á uppleið og það er gaman að fylgjast með því."

Vonar að Grindavík verði meistari
Lucas hefur sterkar skoðanir á Pepsi-deildinni og því liggur beinast við að biðja hann um að spá í spilin um það hvaða lið verður Íslandsmeistari?

„Að mínu mati hlýtur það að vera Valur. Ég held að þeir hafi allt á þessu tímabili, nema framherja. Dion Acoff er ótrúlegur leikmaður og að mínu mati er Sigurður Lárusson ekki langt á eftir honum. Ég elska að horfa á þá báða. Þegar ég kynntist deildinni fyrst hélt ég að það yrði formsatriði fyrir FH að vinna en ég er ánægður með að það sé titilbarátta í gangi."

„Ég verð að viðurkenna að ég myndi elska ef Grindavík myndi vinna og við myndum fá sögu eins og hjá Leicester City. Grindavík er það félag sem er næst hjarta mínu á Íslandi því ég hef hrifist af þeim á þessu tímabili, sérstaklega út af Alex Veigari. Það er ótrúlegt hversu mikið þeir hafa bætt sig í Pepsi eins og menn eins og Andri Rúnar sýna. Hann var ekki næstum jafn öflugur í fyrra. Þeir hafa gert stórkostlega hluti á leikmannamarkaðinum og ég tel að Sam Hewson hafi gert gæfumuninn fyrir þá."

„Ég vona að Stjarnan komist aftur á sama skrið og fyrir nokkrum vikum. Kannski gæti Aaron Kuhl hjálpað en hann er á reynslu núna. Ég myndi elska það ef Valur, Stjarnan, FH og jafnvel Grindavík væru að berjast um titilinn í lokaumferðunum. KA hefur líka hrifið mig á þessu tímabili en ég held að fjarvera Guðmanns (Þórissonar) hafi mikil áhrif á þá."


„Mestu vonbrigðin hjá mér eru KR. Ég var hrifinn af þeim á undirbúningstímabilinu og elskaði 3-4-3 kerfið. Ég held að þeir geti ennþá átt gott tímabil. Þeir eru með besta leikmanninn í deildinni að mínu mati - Óskar Örn Hauksson. Kennie (Chopart) og Tobias (Thomsen) þurfa bara að fara að nýta færin. Það eru mörg góð lið í þessari deild og það er hluti af ástæðunni fyrir því að ég hef orðið ástfanginn af henni. Það eru margar sögur sem hægt er að njóta," sagði Lucas en hann reiknar með að áhugi sinn á íslenska boltanum eigi einungis eftir að vaxa ennþá meira.

„Það eru bara búnar tíu vikur af tímabilinu og ég er svona mikið með deildina á heilanum, hugsið ykkur hvernig þetta verður í lokin. Það hefur hjálpað mér hvað fólk á Íslandi er vingjarnlegt og ég kann að meta það. Ég tala enga íslensku ennþá en það er einn frasi sem ég hef lært, Áfram Grindavík!" sagði Lucas hress að lokum.

Smelltu hér til að sjá Lucas Arnold á Twitter
Athugasemdir
banner
banner