Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 29. júní 2017 08:00
Elvar Geir Magnússon
„Til hamingju Breiðholt með að fá þennan leik"
Breiðholtsslagur í Inkasso-deildinni í kvöld
Halldór Kristinn í leik með Leikni gegn ÍR sumarið 2009.
Halldór Kristinn í leik með Leikni gegn ÍR sumarið 2009.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Addó og Viktor Örn Guðmundsson, leikmaður ÍR, ræða málin.
Addó og Viktor Örn Guðmundsson, leikmaður ÍR, ræða málin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Kristinn Halldórsson, spilandi aðstoðarþjálfari Leiknis.
Halldór Kristinn Halldórsson, spilandi aðstoðarþjálfari Leiknis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er búinn að sakna þess að spila Derby leikina. Þeir hafa ekki alltaf einkennst af glæsilegum fótbolta heldur dugnaði og vilja," segir Halldór Kristinn Halldórsson, spilandi aðstoðarþjálfari Leiknis í Breiðholti.

Í kvöld lýkur fimm ára bið eftir Breiðholtsslag í Íslandsmótinu þegar ÍR tekur á móti Leikni í Inkasso-deildinni. Búast má við harðri baráttu.

Arnar Þór Valsson, þjálfari ÍR-inga, er jafnan kallaður Addó og segir hann að það sé líka mikil eftirvænting í þeirra herbúðum.

„Jú ekki spurning þetta er leikurinn sem við höfum saknað mest síðustu ár í Íslandsmóti. Við drógumst gegn þeim í bikarnum 2014 og það var mjög skemmtilegur leikur. Ég segi bara til hamingju Breiðholt með að fá þennan leik," segir Addó.

ÍR-ingar hafa dvalið í 2. deildinni undanfarin ár en komust loksins upp í fyrra. Halldór man vel eftir því þegar ÍR og Leiknir áttust við á árum áður og Addó var leikmaður ÍR.

„Ég á minningar af mörgum góðum leikjum við ÍR frá því ég byrjaði að spila og var Addó leikmaður í mörgum þeirra. Sá gat sparkað…" segir Halldór.

Skiljum allt eftir á vellinum
Addó segir að undirbúningur ÍR-inga fyrir þennan leik sé ekkert öðruvísi en fyrir aðra leiki.

„Það er alltaf mikil tilhlökkun að fara í þessa leiki. Það er sama í boði fyrir þennan leik eins og hina, það eru þrjú stig og við munum leggja mikið á okkur til að ná í þau. En vissulega þarf að huga meira að sumum hlutum eins og spennustigi fyrir þennan leik. Mikilvægt að menn séu rétt stilltir og í jafnvægi inni á vellinum," segir Addó.

„Ég býst við mikilli stöðubaráttu út um allan völl og það á eftir að skína í gegn að hvorugt liðið vill tapa leiknum. Það verður mikið um návígi og þar verður ekkert gefið eftir. Vonandi verður þetta heiðarlegur leikur því þrátt fyrir nálægðina á milli félaganna þá bera menn virðingu fyrir hvor öðrum held ég, allavega gerum við það, en það sem mér finnst mikilvægast er að mínir menn njóti augnabliksins. Þetta verður skemmtilegur leikur fyrir áhorfendann. Við komum til með að leggja okkur 100% í þennan leik og skilja allt eftir úti á vellinum, svo sjáum við hverju það skilar okkur."

Kemur bara til greina að vinna
Halldór segir að markmið Leiknis fyrir leikinn sé aðeins eitt.

„Það kemur ekki annað til greina en sigur. Við höfum æft vel í vikunni og erum tilbúnir í þennan hörkuleik eftir fimm ára bið," segir Halldór.

„Það er oft þannig að lið sem fer upp um deild liggur til baka, reynir að verja markið sitt og sækja hratt. Þeir eru með flinka menn fram á við og við erum meðvitaðir að þetta verður hörkuleikur. Taflan lýgur ekki, það munar aðeins 3 stigum á liðunum. Hvort það bil verður stærra sjáum við í kvöld."

Bæði lið vildu vera með fleiri stig
Leiknir er í sjötta sæti Inkasso-deildarinnar með 10 stig, þremur stigum á undan ÍR sem er í tíunda sæti. Addó og Halldór voru beðnir um að meta byrjunina á sumrinu hjá sínum mönnum.

„Við erum hundfúlir með niðurstöður nokkurra leikja, en verðum að horfast i augu við það að við erum að fóta okkur í þessari deild og það tekur smá tíma," segir Addó.

„En við erum alveg meðvitaðir um það að við fáum ekki mikinn tíma. Auðvitað hefðum við viljað vera með fleiri stig en við breytum ekki því sem er búið, heldur lærum af því. Við höfum verið inni í öllum leikjum og það finnst mér gott og mikilvægt fyrir okkur, það sýnir okkur að við eigum erindi í þessa deild. Þrátt fyrir að leikir hafi farið upp og niður hjá okkur þá höfum við náð að halda klefanum ferskum og okkur þykir alltaf jafn gaman að mæta á æfingu og í leiki, enda einstakur hópur af leikmönnum sem við höfum hjá okkur í ÍR."

Halldór viðurkennir að stigasöfnun Leiknismanna hafi ekki verið að óskum.

„10 stig eftir 8 leiki er ekki ákjósanlegt en spilamennskan hefur farið mikið batnandi. Það eru aðeins 3 stig í fallsæti og 6 stig í 2. sætið svo deildin hefur ekki enn tekið á sig mynd. Við erum að fara í krefjandi viku og ég vona að við verðum ánægðir með stöðu okkar í deildinni í lok næstu viku," segir Halldór.

Leikur ÍR og Leiknis verður á Hertz vellinum, heimavelli ÍR í Mjóddinni, klukkan 19:15 í kvöld.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner