banner
   mán 17. júlí 2017 19:49
Fótbolti.net
EM í Hollandi
Líklegt byrjunarlið Íslands - Hver verður á toppnum?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska kvennalandsliðið mætir Frakklandi á Koning Willem II leikvangnum í Tilburg og hefst 18:45 að íslenskum tíma.

Við spáum því að Freyr Alexandersson þjálfari liðsins geri þrjár breytingar á liðinu frá síðasta æfingaleik liðsins fyrir Evrópumótið. Þar tapaði Ísland gegn Brasilíu á Laugardalsvelli 1-0.

Við spáum við að Freyr taki reynsluna sem býr í Önnu Björk Kristjánsdóttur fram yfir nýliðann, Ingibjörgu Sigurðardóttur sem spilaði sína fyrstu tvo landsleiki á ferlinum í júní gegn Írlandi og Brasilíu. Frammistaða hennar vakti hinsvegar athygli en reynslan vegur þungt á svona stórmóti.

Dagný Brynjarsdóttir kemur einnig inn í byrjunarliðið en hún gat ekkert leikið með landsliðinu í undirbúningnum, bæði vegna meiðsla sem og að hún þurfti að leika með félagsliði sínu Portland Thorns í Bandaríkjunum.

Við spáum því að hún verði í nýju hlutverki á morgun sem "fölsk nía" fremst á vellinum og komi því inn fyrir Katrínu Ásbjörnsdóttur sem náði ekki að skora í síðustu leikjum liðsins fyrir mótið.

Þá spáum við því einnig að Elín Metta Jensen komi inn á hægri kantinn fyrir yngsta leikmann hópsins, Öglu Maríu Albertsdóttur. Elín Metta gat ekki spilað æfingaleikinn gegn Írlandi þar sem hún var að taka inntökupróf fyrir læknisfræði og svo kom hún inn sem varamaður í leiknum gegn Brasilíu. Elín Metta byrjaði í þremur leikjum liðsins í undankeppninni og kom inn á einu sinni.

Fótbolti.net er með öflugt teymi í Hollandi og er hægt að fylgjast með öllu bak við tjöldin á Snapchat (Fotboltinet), á Instagram og öðrum samskiptamiðlum okkar.

Leikir Íslands á EM:
Ísland 0-1 Frakkland
Ísland 1-2 Sviss
Ísland 0-3 Austurríki
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner