fös 21. júlí 2017 20:00
Arnar Daði Arnarsson
EM kvenna
Freysi: Viljum vera með besta varnarliðið á mótinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við komum hingað með nokkur markmið, einföld og skýr markmið fyrir hópinn. Eitt af því er að við vildum vera með besta varnarliðið á mótinu," sagði Freyr Alexandersson þjálfari íslenska kvennalandsliðsins á fréttamannafundi sem haldin var á Tjarnarhæðinni í Doetinchem fyrr í dag.

„Við setjum höfuð áherslu á það að spila góðan varnarleik," sagði Freyr en hann var spurður út í sóknarleik liðsins undanfarna mánuði og þá aðallega markaþurrðina.

Ísland hefur nú ekki skorað fótboltamark í síðustu fjórum leikjum sínum. Ávallt þegar hann og stelpurnar eru spurðar að því hvort það sé áhyggjuefni þverneita þær fyrir það. En mætti ekki segja að um áhyggjuefni væri að ræða, komi ekki mark á morgun gegn Sviss.

„Ég trúi því að ef við höldum hreinu á morgun þá vinnum við sem þýðir það að við skorum. Eitt stig heldur okkur inn í mótinu. Við gerum okkur grein fyrir því. Þá eru örlögin áfram í okkar höndum en við ætlum okkur samt sem áður sigur."

„Varðandi það hvort það verði áhyggjuefni ef við skorum ekki á morgun. Við búum okkur ekki til einhver áhyggjur. Eins og ég hef alltaf sagt þá viljum við allta skora og við spilum alltaf til þess að skora. Við setjum upp leikinn með það að markmiði að skora. Ef það kemur ekki á morgun þá er það bara þannig," sagði Freyr og hélt áfram.

„Þið megið tala um áhyggjur og það má alveg gagnrýna það eins og þið viljið. En ég minni á það að við skoruðum flest mörk í riðlinum okkar í undankeppninni, þriðja mest af öllum liðunum í keppninni og áttum markahæsta leikmann undankeppninnar. Það hefur ekki verið vandamál hjá okkur að skora en við sem erum íslensk og sitjum hér inni vitum hvað hefur gengið á hjá okkur síðustu mánuði," sagði Freyr að lokum.

Við vonum svo sannarlega að íslensku stelpurnar skori mark og jafnvel mörk í leiknum gegn Sviss á morgun.


Fótbolti.net er með öflugt teymi í Hollandi og er hægt að fylgjast með öllu bak við tjöldin á Snapchat (Fotboltinet), á Instagram og öðrum samskiptamiðlum okkar.

Leikir Íslands á EM:
Ísland 0-1 Frakkland
Ísland 1-2 Sviss
Ísland 0-3 Austurríki
Athugasemdir
banner
banner
banner