Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 23. júlí 2017 13:15
Arnar Daði Arnarsson
EM í Hollandi
3-4-3 kerfi Freys skilað Íslandi einum sigri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir frábæran árangur í undankeppni EM þar sem Ísland vann alla leiki sína í riðlinum áður en liðið mætti Skotlandi í lokaleik sínum ákvað Freyr Alexandersson þjálfari kvennalandsliðsins að breyta um leikkerfi og fara úr fjögurra manna varnarlínu í þriggja manna varnarlínu með vængbakverði.

Það er óhætt að segja að gengi liðsins hafi ekki verið upp á marga fiska í kjölfarið.

Frá því að liðið hóf að leika með þriggja manna varnarlínu hefur það aðeins unnið einn af sex leikjum sínum. Sá sigur kom gegn Slóvakíu í byrjun apríl mánaðar en þá lék liðið aðeins 3-4-3 í fyrri hálfleik. Staðan var þá 1-0 en leiknum lauk með 2-0 sigri.

Freyr Alexandersson segir í ítarlegu viðtali sem hann var í á Fótbolta.net í morgun, ekki sjá eftir því að hafa breytt um kerfi í aðdraganda EM.

„Ég sé ekkert eftir því. Það er klárt mál að þetta kerfi hentar okkur vel og við náum að spila á styrkleikum liðsins og það hefur gengið vel. Það er ekkert út á leikkerfið að setja. Það eru litlu atriðin í leiknum sem sjá til þess að við náum ekki sigri í gegn Sviss og á móti Frökkum, að minnsta kosti jafntefli."

Leikir Íslands í 3-4-3:
Sviss 1-2 tap (22. júlí)
Frakkland 0-1 tap (18. júlí)
Brasilía 0-1 tap (13. júní)
N-Írland 0-0 jafntefli (8. júní
Slóvakía 2-0 sigur (6. apríl)
Spánn 0-0 jafntefli (6. mars)
Japan 2-0 tap (3. mars)

Hann segir að mörkin sem liðið fékk á sig í 2-1 tapi gegn Sviss í gær hafi ekkert með leikkerfið að segja.

„Fyrra markið kemur eftir innkast og það skiptir engu máli hvaða leikkerfi þú spilar þegar það kemur innkast og þríhyrningur á bakvið mann. Seinna markið þá hreinlega klára leikmenn ekki leikstöðuna einn á móti einum inn í vítateig. Það hefur ekkert með leikkerfið að gera. Ekki einn skapaðan hlut. Leikkerfið sýnir að við fáum þrjú marktækifæri á okkur í gær. Það kristalast á því hvernig við spilum taktík," sagði Freyr.

Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni sem tekið var við Frey eftir æfingu landsliðsins í Ermelo í morgun hér.

Fótbolti.net er með öflugt teymi í Hollandi og er hægt að fylgjast með öllu bak við tjöldin á Snapchat (Fotboltinet), á Instagram og öðrum samskiptamiðlum okkar.

Leikir Íslands á EM:
Ísland 0-1 Frakkland
Ísland 1-2 Sviss
Ísland 0-3 Austurríki
Athugasemdir
banner
banner